24.5.2011

Þriðjudagur 24. 05. 11.

Ég sé á mbl.is að Icelandair býður farþegum sínum sem eru strandaglópar í London vegna lokunar flugvalla hér á landi í nótt að gista á hóteli. Ég heyrði hins vegar frá farþega sem var á vegum Iceland Express á Gatwick-flugvelli í London að engin slík þjónusta stæði þeim farþegum til boða.

Vegna áhuga míns á málum sem tengjast tilraunum Samfylkingarinnar til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið hef ég velt fyrir mér stöðu Leifsstöðvar og flugrekstrarfélags ríkisins Isavia ohf. ef til aðildar kæmi. Skrifaði ég leiðara um einn þátt málsins á Evrópuvaktina í dag. Sýnist mér að fjármálaráðuneytið sé þegar tekið til við að laga rekstur fríhafnarinnar að kröfum ESB með nýrri gjaldtöku. Þetta hefur leitt til tekjutaps ríkissjóðs eftir að ákveðið var að auka heimild til að flytja tollfrjálsan bjór til landsins í því skyni að bæta fjárhagsstöðu Isavia.

Í athugunum mínum hafði ég spurnir af því að Isavia hefði neitað að skapa aðstöðu til reykinga á flugvellinum fyrir áhafnir og farþega véla á vegum bandaríska hersins og þannig skorið á ný viðskipta- og þjónustutengsl sem voru í fæðingu. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Isavia hefur kannski ákveðið að fara að fordæmi Bloombergs, borgarstjóra í New York, og banna reykingar utan dyra á Keflavíkurflugvelli eins og hann hefur gert í stórborginni.

Sé þetta rétt og að um vélar á vegum Bandaríkjahers sé að ræða kann ástæðan fyrir því að þeim sé haldið frá Keflavíkurflugvelli að vera afstaða innan stjórnar Isavia sem smitast hafi af Jóni Gnarr borgarstjóra og andúð hans á öllu sem viðkemur hernaði.