24.8.2011

Miðvikudagur 24. 08. 11.

Í dag ræddi ég við Orra Hauksson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í þætti mínum á ÍNN. Lýsing hans á stöðu atvinnumála og íslenskra iðnfyrirtækja undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er ekki glæsileg. Byggingariðnaður hefur hrunið. Í sjávarútvegi halda menn að sér höndum af ótta við vanhugsaðar breytingar á kvótakerfinu. Þar með minnka viðskipti við hátæknifyrirtæki sem þróa vörur sínar hér og láta síðan að sér kveða á alþjóðamörkuðum. Boðaðar skattahækkanir á stóriðjufyrirtæki eru í andstöðu við samkomulag frá 2009 og hræða erlenda fjárfesta. Gjaldeyrishöftin spilla almennt öllum viðskiptum í landinu. Innan Samtaka iðnaðarins eru menn ekki einhuga um afstöðuna til ESB. Þátturinn er sýndur klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Sjón er sögu ríkari.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands starfar á almennum markaði og verður að ávinna sér traust viðskiptavina eins og aðrir sem keppa þar. Miðað við óvild Þórólfs Matthíassonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, í garð íslensks landbúnaðar þarf engan að undra að Landssamtaka sauðfjárbænda hafi ákveðið að stofna ekki til viðskipta sem tengist starfsvettvangi Þórólfs.

Hvernig er unnt að treysta fræðimanni eins og Þórólfi sem slær um sig með fullyrðingum um að yfirlýsingar forystumanna bænda um gildi landbúnaðar fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar séu marklausar þar sem dráttarvélar og önnur tæki verði gagnslaus vegna olíuskorts á hættustundu; undanskilið er að þess vegna séu Íslendingar betur settir í ESB. Spyrja má: Hvað með skipin og flugvélarnar sem flytja eiga varning til landsins verða þau ekki máttvana vegna skorts á eldsneyti?

Ég hef áður lýst vanþóknun á því hvernig fréttastofa RÚV hleypur upp til handa og fóta og vitnar með velþóknun í árásargreinar Þórólfs á sauðkindina í Fréttablaðinu. Fær hann í því efni mun meiri athygli en aðrir sem rita um hugðarefni sín í blöðin. Þegar RÚV sagði frá ákvörðun sauðfjárbænda var komist þannig að orði að þeir hefðu „afþakkað þjónustu hagfræðistofnunar“ eins og þeim hafi staðið hún endurgjaldslaus til boða. Málum er ekki þannig háttað, bændur kaupa þjónustuna og hljóta að leita til þess sem þeir treysta.