5.9.2011

Mánudagur 05. 09. 11

Ég sagði í síðustu viku frá lygum Pressunnar um styrk til Evrópuvaktarinnar þar sem því var ranglega haldið fram að hann kæmi frá Evrópusambandinu. Alþingi veitti styrkinn. Nú hefur sama lygin verið endurtekin á vefsíðu Evrópusamtakanna og skrifaði ég um það á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Eitt er að Pressan fjalli um þetta mál á þann hátt sem menn kjósa. Björn Ingi Hrafnsson eigandi síðunnar hefur ekki séð ástæðu til að biðja okkur Styrmi Gunnarsson afsökunar á rangfærslunum um okkur. Það er greinilegt að eitthvert ritstjórnarlegt markmið er að baki þessum áburði, líklegt er að á Pressunni þyki það þjóna ESB-málstað sínum að halda þessum rangfærslum áfram.

Evrópusamtökin slá gjarnan um sig sem málsvari hins eina og sanna sem sagt er hér á landi um Evrópusambandið og ágæti þess. Þrátt fyrir þetta kjósa ritstjórar vefsíðu samtakanna að endurtaka lygi Pressunnar eins og ekkert hafi í skorist.

Að þessir talsmenn ESB-aðildar skuli velja þennan óskiljanleg veg ósanninda vegna þessara styrkja alþingis sýnir að þeim er alveg sama um hvað er rétt eða rangt, tilgangurinn helgar meðalið. Þetta dæmalausa mál hefur orðið til þess að ég sé ekki nokkra ástæðu til að trúa neinu af því sem birt er á Pressunni um ESB-málefni og því síður á vefsíðu Evrópusamtakanna - að minnsta kosti ekki á meðan þeir sem að þessum skrifum standa sjá ekki að sér og biðjist afsökunar á lyginni.