14.9.2011

Miðvikudagur 14. 09. 11

Við lögðum af stað frá hótelinu í St. Pétursborg klukkan 05.15 í morgun að staðartíma (01.15 að ísl. tíma) áleiðis til flugvallarins við Helsinki. Pétur Óli fararstjóri vill aka af stað á undan öðrum langferðabílum til að hafa forskot á landamærunum. Það heppnaðist, afgreiðsla Rússanna er hæg og enginn veit í raun hve langan tíma það tekur að komast í gegnum þrjú hlið þeirra. Klukkan var um 08.30 að Rússatíma við landamærin 07.30 að finnskum tíma. Það tók okkur að minnsta kosti klukkustund að fá leyfi til að aka yfir að finnsku landamærunum og ganga inn á Schengen-svæðið.

Vegna þess hve vel ferðin gekk frá St. Pétursborg til Helsinki (alls um sex tímar) höfðum við tíma til skoðunarferðar um miðborg Helsinki áður við fórum til innritunar á flugvellinum klukkan 13.00 og Icelandair-vélin lagði þéttsetin af stað á áætlun 15.20 og lenti 15.50 að íslenskum tíma á Keflavíkurflugvelli. Þegar við flugum inn yfir landið hjá Egilsstöðum sagði flugstjórinn að í syðri sæist Vatnajökull og í norðri Herðubreið - Eyjafjallajökull í suðri og Eyjafjörður í norðri og fyrir lendingu var flogið útsýnisflug yfir Reykjavík.

Veðrið á Keflavíkurflugvelli, sól og hlýindi, var miklu betra en í Helsinki, rok og rigning.