15.9.2011 15:29

Fimmtudagur 15. 09. 11

Flutti í kvöld ræðu um Rosabauginn í Rótarý-klúbbi Rangæinga á Hvolsvelli og tók þátt í líflegum umræðum við klúbbfélaga.

Í Kastljósi miðvikudaginn 14. september var sagt frá heimildarmynd sem unnið er að um Halldór Laxness til kynningar á honum fyrir útlendinga. Þar er sú skýring fundin á því að bækur Halldórs hættu að seljast í Bandaríkjunum undir lok fimmta áratugarins að íslensk stjórnvöld, það er Bjarni Benediktsson, faðir minn, hafi óttast svo Atómstöðina sem kom út 1948 að hann hafi á gengið á fund sendiherra Bandaríkjanna í Reykjavík og beðið hann um aðstoð „við að eyðileggja mannorð“ Halldórs í Bandaríkjunum. Það hafi tekist á þann veg að bækur hann seldust ekki meira þar.

Þessi söguskýring er með ólíkindum þótt hún sé ekki ný. Að íslensk stjórnvöld og bandarísk ráði því hvort Bandaríkjamenn hætti að lesa einhvern höfund er fráleitt.  Hitt er einnig mikil einföldun á því sem gerðist á þessum árum og snerti afskipti íslenskra stjórnvalda af umsvifum Halldórs í Bandaríkjunum. Afskiptin lutu að fjármálum og skattamálum eins og ítarlega er rakið í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Laxness. Þar segir meðal annars frá því á blaðsíðu 34 að í samtali föður míns, sem þá var utanríkisráðherra, og Williams Trimbles, sendifulltrúa Bandaríkjanna, sumarið 1947 hafi Laxness borið á góma en bók hans Sjálfstætt fólk kom út í Bandaríkjunum árið 1946 hjá Book-of-the-Month Club og seldist í mörg hundruð þúsund eintökum. 

Halldór Laxness gegndi á þessum árum lykilhlutverki sem baráttumaður fyrir kommúnista og gegn Bandaríkjunum.  Vildi utanríkisráðherra vita hve há höfundarlaun Laxness hefði fengið í Bandaríkjunum, það fé rynni hugsanlega til að kosta margvíslega baráttu kommúnista á Íslandi. Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi fyrirspurn um þetta í fjármálaráðuneytið haustið 1947. Hinn 21. febrúar 1948 sagði Trimble síðan í skeyti til yfirboðara sinna: „Athugið að orðstír Laxness myndi skaðast verulega, ef við komum því til skila, að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti. Þar af leiðandi er mælt með frekari rannsókn á þeim höfundarlaunum, sem hann hefur væntanlega fengið fyrir Sjálfstætt fólk.“


 

Fram kom að Halldór hafði fengið 24.000 dollara og stæðu 21.000 dollarar á bankabók Halldórs. Frá þessu skýrði sendifulltrúinn utanríkisráðherra í trúnaði. Síðar fengust þessar upplýsingar eftir opinberum leiðum að ósk sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu sem hófst handa við að innheimta skatt af Halldóri, tæplega 10.000 dollara. Var að lokum samið um málið. Einnig var rannsakað hvort Halldór hefði brotið gjaldeyrislög þar sem hann hefði ekki skilað gjaldeyri lögum samkvæmt. Var hann sakfelldur fyrir það eftir að hafa neitað réttarsátt.

Þeim sem vilja gera heimildarmynd um Laxness fyrir útlendinga finnst ef til vill ekki heppilegt að segja þessa sögu eins og hún er. Þeir eru hins vegar ekki að segja söguna alla á þann hátt sem þeir kusu að lýsa henni í Kastljósinu. Hafi eitthvað annað orðið til að draga úr áhuga Bandaríkjamanna á að kaupa og lesa bækur Laxness en almennt gerist með bækur eða höfunda sem búa við misjafnar vinsældir er skýringin í myndinni of langsótt til að vera trúverðug.