21.1.2012

Laugardagur 21. 01. 12

Alþingi er ákærandi í landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde. Ákærendur þurfa á öllum stigum máls að skoða hug sinn og leggja mat á stöðuna. Í landsdómsmálinu hefur tveimur meginatriðum ákærunnar verið vísað frá dómi. Þá er eðlilegt að ákærandinn athugi á skipulegan hátt hvort halda beri fast í ákæruna.

Slík athugun fer nú fram á alþingi. Fráleitt hefði verið að vísa málinu frá óathuguðu eins og Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, og fleiri vildu enda felldi meirihluti þingmanna tillögu um það. Málið er ekki komið í dóm og því er engin röskun á störfum dómstólsins að þingið taki til skoðunar hvort láta eigi eins og ekkert hafi í skorist þótt ákæran sé gjörbreytt eftir frávísunina.

Í raun er óskiljanlegt að þingmenn skuli leggjast gegn jafnsjálfsögðum hlut og þeim að þeir átti sig á nýjum aðstæðum í máli sem þeir hrundu af stað. Ráði fordómar afstöðu meirihlutans í þingnefndinni sem fær málið til skoðunar fellur hann á þessu prófi.