9.4.2012 22:10

Mánudagur 09. 04. 12

Ósennilegt er að stuðningsmönnum Þóru Arnórsdóttur takist að fæla fleiri „alvöru“ frambjóðendur frá því að bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni. Frásagnir af því hve snarlega tókst að safna meðmælendum til stuðnings Þóru er liður í þeirri viðleitni. Þá er furðulegt að sjá sjálfstæðismanninn Friðjón R. Friðjónsson umturnast í reiðikasti í garð þeirra sem hann telur andstæða Þóru. Með ofsafengnum upphrópunum á að þagga niður í þeim sem hafa efasemdir um framboðið vegna skoðana frambjóðandans eða stjórnmálaafskipta. Ekkert af þessu er til marks um hinn yfirvegaða vilja til að sætta ólík sjónarmið sem ber að einkenna embættisfærslu forseta Íslands.

Samfylkingarvefsíðan Eyjan er komin í loftið að nýju með framboði Þóru. Aðstandendur síðunnar telja að framboðið hafi verið tilkynnt með „snilldarlegri“ tímasetningu. Þeim finnst miður að birta efni andstætt Þóru en láta sig hafa það.