24.4.2012 22:20

Þriðjudagur 24. 04. 12

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG, sat við sama gamla heygarðshornið í Kastljósi kvöldsins þegar hann ræddi við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingflokksformann sjálfstæðismanna, um landsdómsmálið. Óvildin í garð Sjálfstæðisflokksins lekur af Birni Vali og allt sem hann segir er einnig reist á henni. Skyldi hann ekki efast um réttmæti þess að sitja fastur í þessum óhróðri þegar hann skoðar tölurnar um fylgishrun VG? Eða er forherðingin algjör?

Nú hefur ferlið sem hófst undir áramót 2008 þegar alþingi ákvað að koma á rannsóknarnefnd vegna hrunsins runnið sitt skeið. Vandræðin við þennan þátt uppgjörsins á hruninu hófust síðsumars 2010 þegar nefnd Atla Gíslasonar, þáverandi þingmanns VG, skilaði niðurstöðu sinni og lagði til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir og kallaðir fyrir landsdóm. Við það varð upplausn í þinginu. Nú segja þeir sem hefðu getað komið í veg fyrir þá hneisu að ákæra Geir H. Haarde einan sjá eftir að hafa ekki beitt sér á annan veg í þingsalnum 28. september 2010.

Magnús Thoroddsen, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði við RÚV í kvöld að óhugsandi væri að pólitík hefði ráðið afstöðu manna í landsdómi, hann hefði aldrei kynnst slíku í héraðsdómi eða hæstarétti. Magnús hefur hins vegar aldrei setið í landsdómi en þar er meirihlutinn, átta af 15 dómurum,  kosinn flokkspólitískri kosningu á alþingi auk þess sem ákæran er reist á pólitískri ákvörðun alþingis – að umgjörðin og aðdragandinn setji pólitískan svip á störf  dómsins er hafið yfir vafa. Hvað pólitíkin ræður miklu um niðurstöðuna skal ekki um dæmt hér. Hún svífur að minnsta kosti óhjákvæmilega yfir vötnunum.