20.6.2012 21:54

Miðvikudagur 20. 06. 12

Í morgun sáum við  morgunsýningu í hinu fræga Cuvilliés-leikhúsi í München , óperu eftir Tékkann Leos Janacek sem á þýsku nefnist Das schlaue Füchslein, Hin kæna yrðlingur. Þetta var skólasýning. Datt okkur í hug á síðustu mínútu að reyna að fá miða sem tókst.

Í kvöld fórum við í Kreuzkappelle í Jesúítakirkju St. Michaels og hlýddum á prófessor Nimrod Guez flytja einleiksónötur á fiðlu[r] og víólu eftir Bach, Max Reger og Eugène Ysaÿe. Hann ætlaði að leika á barokkfiðlu sónötu nr. 2 eftir Bach en í öðrum þætti slitnaði strengur svo að hann hóf leik sinn að nýju á nútímafiðlu sem hann hafði annars aðeins ætlað að nota í sónötu nr. 4 eftir Ysaÿe. Svítu nr. 3 eftir Reger lék hann á víólu.

Staðfest var í héraðsdómi Reykjavíkur í dag að Jóhanna hefði brotið jafnréttislög á Önnu Kristínu Ólafsdóttur og ekki nóg með það, hún hefði einnig gengið þannig á hlut hennar í opinberri yfirlýsingu ráðuneytisins að Önnu voru dæmdar þær miskabætur sem hún krafðist.

Í tilefni af þessu segir í yfirlýsingu sem forsætisráðuneytið birti í dag að „fallist [sé] á sömu fjárhæð miskabóta og forsætisráðuneytið hafði þegar boðið stefnanda í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála“.

Þetta er í samræmi við aðra hundalógík Jóhönnu í málinu. Hún er dæmd til að borga miskabætur vegna ummæla sem hún lét falla en lætur nú í veðri vaka að héraðsdómur hafi verið að taka undir einhver sjónarmið sín.

Hvenær bindur þingflokkur Samfylkingarinnar enda á þetta rugl í forsætisráðuneytinu undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur?