30.8.2012 21:54

Fimmtudagur 30. 08. 12

Í dag skrifaði ég á Evrópuvaktina um stækkun ráðuneyta og ráðningu starfsmanna í ný embætti þar í tilefni af ríkisráðsfundinum sem haldinn var klukkan 14.00 í dag. Ég sé að einhverjir bloggarar undrast að ég sé þeirrar skoðunar að óskynsamlegt sé að fækka ráðuneytum af því að stækkun ráðuneyta hafi verið samþykkt á landsfundi sjálfstæðismanna 2007.

Ég hef aldrei verið talsmaður stórra ráðuneyta. Ég tel til dæmis fráleitt að einn ráðherra sé ábyrgur fyrir helmingi ríkisútgjalda eins og velferðarráðherrann. Þá er ég ekki þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að þrengja hina pólitísku ábyrgð á of fáar herðar. Aðhald í stórum opinberum einingum er minna en litlum. Sérþekking er eyðilögð og stöðum fækkað sem auðvelda ríkinu að keppa um fólk í fremstu röð við einkaaðila.

Það er til marks um heimskuleg rök fyrir því sem er að gerast núna að vitna til ályktana Sjálfstæðisflokksins frá 2007. Breytingarnar nú ber að setja í samband við ESB-aðildarumsóknina eins og allt annað sem þessi ríkisstjórn gerir. Hefði breytingin ekki fallið að umsókninni hefði hún ekki verið gerð, svo einfalt er það.

Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra veitist hart að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra vegna ummæla hans um að hann hafi hreina samvisku vegna skipunar í embætti sýslumanns á Húsavík þrátt fyrir áfellisdóm kærunefndar jafnréttismála. Kannski er það misminni en ég minnist þess ekki að Kristín hafi tekið slíka syrpu þegar nefndin fann að skipan jafnréttisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur á embættismanni forsætisráðuneytinu og hlaut síðan dóm vegna málsins. Varla gerist jafnréttisstýra sek um ójafnrétti milli ráðherra?