27.9.2012 20:45

Fimmtudagur 27. 09. 12

Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti í dag að hún ætlaði að hætta sem forsætisráðherra og mundi ekki bjóða sig fram oftar. Í fréttatíma ríkisútvarpsins ræddi Jóhanna Vigdís við forsætisráðherra, þær nöfnur gátu ekki setið á sér heldur þótti nauðsynlegt að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn. Var til marks um einstakt pólitískt smekkleysi Jóhönnu að hún skyldi ekki halda aftur af sér, að vísu sat fréttamaðurinn ekki heldur á sér. Hvaða tilgangi þjónaði að blanda Sjálfstæðisflokknum í þetta kveðjusamtal við Jóhönnu?

Svarið við spurningunni er einfalt: Það er fastur liður hjá fréttastofu ríkisins að sparka til Sjálfstæðisflokksins hvenær sem tækifæri gefst sama hvert tilefnið er eins og þarna birtist.

Það er mikill munur á illmælgi Jóhönnu og því sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við samfylkingarvefsíðuna Eyjuna í dag. Þar má meðal annars lesa þetta:

„Þótt ég hafi ekki verið fylgjandi Jóhönnu í skoðunum eða stutt hennar áherslur, þá hefur hún verið heil í þeim samskiptum sínum við aðra flokka á þinginu. Hennar stærstu mistök á þessu kjörtímabili var að setja of mörg átakamál á dagskrá sem leiddi til þess að mál sem hefðu átt að vera í forgangi og urðu undir. Mér finnst eins og hún hafi of oft valið átök í stað sáttar.“

Ég er þeirrar skoðunar að andrúmsloftið í íslenskum stjórnmálum muni breytast til batnaðar við að Jóhanna Sigurðardóttir snýr sér að öðru en pólitíkinni. Megi henni vegna sem best!

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna þar sem Jóhanna kemur við sögu eins og hér má lesa.