Föstudagur 02. 11. 12
Í hádeginu hlustaði ég á Hannes Hólmstein Gissurarson flytja fróðlegan fyrirlestur um þróun mála í Kína undir harðstjórn Maós formanns í Kína með vísan til bókarinnar Mao sagan sem aldrei var sögð eftir Jung Chang og Jon Halliday. Ólafur Teitur Guðnason þýddi bókina sem kom út hjá Forlaginu árið 2007. Hannes ræddi meðal annars gagnrýni Geirs Sigurðssonar og Sverris Jakobssonar á bókina og þótti hún ekki makleg. Konfúsíarstofnunin stóð að fyrirlestri Hannesar og var fundarsalurinn full setinn þrátt fyrir að veðurofsinn væri svo mikill að ekki væri unnt að opna aðaldyr háskólans heldur urðu áheyrendur að fara inn um bakdyr inn í aðalbyggingu skólans
Skyfall heitir nýja James Bond myndin sem fer nú sigurför um heim allan og stendur undir væntingum aðdáanda 007. Skyfall er heiti á húsi eða býli á Skotlandi, Skýfall á íslensku. Þegar leitað er í bæjarnafnaskrá hér á landi finnst ekkert býli með þessu nafni. Heiti Bond-myndarinnar sem nú er kynnt á skiltum alls staðar á byggðu bóli er af norrænu bergi brotið eins og svo mörg örnefni í Skotlandi og raunar á Bretlandseyjum öllum.
Ekki fer fram hjá neinum að svonefnd Airwaves hátíð fer fram í Reykjavík 31. október til 4. nóvember. Sagt er að áhugasamir verði að kaupa miða á allt sem þar er í boði fyrir 16.000 krónur og stundum sé tónlistin flutt í svo litlum sal að borin von sé að eigendur aðgöngumiða rúmist þar allir. Þetta er frumleg aðferð við öflun fjár og væntanlega til marks um að áhuginn á hátíðinni sé mikill.