12.11.2012 21:40

Mánudagur 12. 11. 12

Mats Persson, forstöðumaður hugveitunnar Open Europe, flutti erindi í Háskóla Íslands á vegum Evrópuvaktarinnar, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Alþjóðamálastofnunar um samrunaþróun og samkeppnihæfni evru-svæðisins. Hann taldi engan áhrifamann innan ESB með hugann við aðildarviðræður við Íslendinga. Mun stærri mál væru á dagskrá og þetta væri alls ekki rétti tíminn fyrir smáríki til að ganga í sambandið.

Sama dag og birt er niðurstaða í skoðanakönnun sem sýnir að 53,7% aðspurðra vilja draga ESB-umsóknina til baka birtist viðtal á vegum fréttastofu ríkisins við Michael Leigh sem var forstöðumaður stækkunarskrifstofu ESB. Hann lætur eins og um „samning“ ESB sé að ræða við umsóknarríki þegar málið snýst um að fara að reglum ESB um aðlögun. Að líta á Leigh sem hlutlægan eða hlutlausan aðila þessa máls er fráleitt. Embættismenn stækkunardeildar ESB eru það ekki. Þeir líta á það sem hlutverk sitt að ná markmiðinu sem ESB setur sér þegar umsóknarríki er samþykkt: að ríkið gangi í klúbbinn á forsendum klúbbsins.

Á ruv.is er vitnað í Michael Leigh á þennan hátt:  „Hann er á því að þegar nánar sé að gáð verði fiskveiðimálin ekki sá þröskuldur sem margir Íslendingar kunna að halda. Ástæðan er sú að Íslendingar deila ekki lögsögu við önnur ríki og deilistofnar eru fáir.“ Þessa rullu hafa menn gjarnan farið með þegar þeir halda að nauðsynlegt sé að milda afstöðu Íslendinga til aðildarviðræðnanna. Vandinn nú er hins vegar sá að engar viðræður hefjast um sjávarútvegsmál milli fulltrúa Íslands og ESB nema makríldeilan verði leyst.  Ekki verður séð að rætt hafi verið við Leigh um það mál í ríkisútvarpinu.