14.11.2012 22:10

Miðvikudagur 14. 11. 12

Bloggarar eru ólíkir en sækjast sér um líkir.  Hilmar Jónsson (gæti verið dulnefni) bloggari er með okkur Davíð Oddsson á heilanum. Ýmislegt verra getur að vísu komið fyrir menn og eitt af því er til dæmis að trúa Sandkorni sem Reynir Traustason, ritstjóri DV, ritar á vefsíðuna  dv.is og kannski í blaðið sjálft sem ég sé aldrei. Reynir var einn af handlöngurum Baugsmanna á sínum tíma og hefur lagt fæð á okkur Davíð síðan. Hann birti til dæmis brot úr fundargerðum stjórnar Baugs í Fréttablaðinu í byrjun mars 2003 og vildi ekki segja hvar hann hefði fengið þau, þá mátti ekki heldur skýra frá eignarhaldi Baugsmanna á blaðinu af því að það féll ekki að samspili þeirra með Samfylkingunni til að koma Davíð frá völdum.

Hér í dagbókinni var sagt frá því sunnudaginn 11. nóvember að fréttastofa ríkisútvarpsins hefði kallað í Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor í HÍ, til að sanna kenningu fréttamanns um að úrslit prófkjörs í SV-kjördæmi hefðu verið „áfall“ fyrir Bjarna Benediktsson. Bjarni hafði hafnað kenningunni þegar fréttamaðurinn kynnti hana en Gunnar Helgi tók undir með fréttamanninum og bætti við að Bjarni stæði frammi fyrir „erfiðu verkefni“ og síðan orðrétt: „Flokkurinn er með ákveðinn aftursætisbílstjóra uppi á Morgunblaði sem ennþá setur mjög mark sitt á flokkinn og gerir hverjum þeim sem ætlar að leiða flokkinn mjög erfitt fyrir.“

Af þessu tilefni sagði ég: „…kallaði fréttastofan í áfalla- og skrímslafræðing sinn, Gunnar Helga. Hann taldi Bjarna hafa orðið fyrir áfalli og minnti á skrímslið í Hádegismóum sem gerði formanni Sjálfstæðisflokksins lífið leitt.“ Reynir komst að því af alkunnu hyggjuviti sínu að með þessum orðum réðist ég illa að Davíð Oddssyni og kallaði hann „skrímsli“ og Hilmar (líklega dulnefni, ólíklegt að nokkur skrifi það sem birtist á síðu hans undir réttu nafni) apar þetta upp eftir snillingnum Reyni.

Hinn 19. ágúst 2009 birtist hér á síðunni  tilvitnun í Gunnar Helga Kristinsson prófessor þar sem hann talaði um „skrímsladeildina“ innan Sjálfstæðisflokksins. Hann telur greinilega Davíð Oddsson í henni auk mín og vafalaust nokkurra fleiri. Ég geri ekki kröfu til þess að Reynir og Hilmar, sé hann til, viti forsögu þess að ég kallaði Gunnar Helga „skrímslafræðing“. Hitt er í samræmi við annan ritsóðaskap þeirra að þeir skuli velta sér upp úr því sem þeir sjálfir skapa vegna þessa.