Mánudagur 14. 01. 13
Í hádeginu hlustaði ég á Nils Karlson frá Svíþjóð flytja fyrirlestur um nýja sænska módelið, sjá upplýsingar um hann hér. Svíar gengu í gegnum dýrkeypta reynslu á fyrstu árum tíunda áratugarins þegar vextir fóru í 500% og aðrar öfgar í efnahagsmálum þeirra voru í samræmi við það. Með því að snúa baki við íhlutunarstefnu jafnaðarmanna, draga úr ríkisrekstri, lækka skatta og vinna að einkavæðingu tókst þeim að ná sér á strik aftur.
Hér á landi hafa ESB-aðildarsinnar haldið því fram að ákvörðun Svía um aðild að ESB hafi skipt sköpum fyrir þá á leiðinni úr efnahagsvandanum. Karlson minnist ekki einu orði á ESB-aðildina í fyrirlestri sínum og svaraði fyrirspurn um efnið á þann veg að hann hefði verið með eina glæru þar sem minnst hefði verið á ESB en ákveðið að sleppa henni af því að hún skipti ekki máli. Hann sagði að Svíar þökkuðu nú sínu sæla fyrir að hafa hafnað evrunni á sínum tíma.
Jón Baldvin Hannibalsson kynnti sig sem fyrirverandi formann Alþýðuflokksins og spurði hvort allt hið ágæta sem Karlson hefði lýst væri ekki einfaldlega sænskum jafnaðarmönnum að þakka og Stefán Ólafsson prófessor tók í sama streng. Karlson hélt nú ekki, stefnan hefði verið mótuð í mikilli andstöðu við jafnaðarmenn. Þeir hefðu svarað stefnu borgaraflokkanna með því að móta „þriðju leiðina“ svonefndu en hún hefði ekki skilað neinu og enginn talaði um hana lengur.
Hafi jafnaðarmenn og ESB-aðildarsinnar ekki róið á fengsæl mið til stuðnings skoðunum sínum hjá Nils Karlson urðu þeir ekki síður fyrir vonbrigðum vegna undanhalds ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í ESB-málum.
„Nú ráða Vinstri græn för í utanríkismálum þjóðarinnar! Þessi niðurstaða um að hægja á aðildarviðræðunum er algjörlega óásættanleg fyrir Samfylkinguna. […] Aðild að Evrópusambandinu er eitt að helstu stefnumálum Samfylkingunnar. Hvernig í ósköpunum eiga frambjóðendur flokksins að svara fyrir þetta mál – þetta klúður – í kosningabaráttunni. Kallast þetta ekki að fara inn í kosningabaráttuna með buxurnar á hælunum?“
Segir Baldur Þórhallsson, prófessor og varaþingmaður Samfylkingarinnar, á fésbókarsíðu sinni. Hann boðaði vorið 2009 að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild Íslands færi fram á árinu 2010.
Rætt var við Árna Pál Árnason, formannsframbjóðanda Samfylkingarinnar, í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hann lauk samtalinu á þessari setningu: „Lífskjörum [hefur verið] rænt af fólki með skipulegum hætti.“ Þannig lýsti hann stjónarfari Jóhönnu og Steingríms J.