13.2.2013 22:50

Miðvikudagur 13. 02. 13

Í dag ræddi ég við Arnar Þór Jónsson, sérfræðing við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í þætti mínum á ÍNN. Tilefni samtals okkar er grein Arnars Þórs í nýjasta hefti Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands, um traust á dómstólunum. Þetta er mikilvægt umræðu- og umhugsunarefni. Arnar Þór er vel til þess fallinn að ræða þetta mál enda hefur hann bæði starfað í héraðsdómi og hjá hæstarétti.

Þátturinn verður næst á dagskrá á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00. Í þættinum gerðist það sem aldrei hefur komið fyrir mig áður að það var komið fram í miðjan fyrri hluta þáttarins þegar ég áttaði mig á því að ég hafði gleymt að setja á mig gleraugun eftir að ég var sminkaður. Fann ég fyrir þessu þegar ég átti erfitt með að sjá hvað tímanum leið á klukkunni í upptökuherberginu.

Kvikmyndin Zero Dark Thirty um leitina að Osama bin Laden, leiðtoga al-Kaída og endalok hans undir leikstjórn Kathryn Bigelow var frumsýnd 19. desember 2012 í Los Angeles hefur verið tilnefnd ein af bestu myndunum við Óskarsverðlaunin sem verða afhent eftir rúma viku.

Myndin hefur vakið deilur og í Hollywood vildu einhverjir setja hana á bannlista svo að hún kæmi ekki til álita við Óskarsverðlaunin vegna atriða í henni sem sýna pyntingar CIA á hryðjuverkaföngum. Um það er meðal annars deilt hvort pyntingar hafi leitt CIA á slóð bin Ladens eins og fram kemur í myndinni. Í nafni tjáningar- og sköpunarfrelsis höfnuðu menn því að setja myndina á bannlista.

Ýmsir töldu að myndin kynni að verða frumsýnd fyrir bandarísku forsetakosningarnar og hún yrði Barack Obama til framdráttar þar sem atlagan að bin Laden er meðal þess sem Obama er talið helst til tekna og í myndinni kemur fram að forsetinn tók að lokum af skarið um að farið skyldi að ráðum CIA-fólksins sem taldi bin Laden dveljast í húsinu í Abottabad þar sem hann fannst að lokum og var drepinn.

Það er vandi að halda spennu í mynd sem öllum sem fylgjast með fréttum vita hvernig endar. Kathryn Bigelow tekst það með ágætum og lokaatriðið er mjög fagmannlega gert í senn af hörku og hógværð .