24.4.2013 23:30

Miðvikudagur 24. 04. 13

Í dag ræddi ég við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN í 50 mínútur í tilefni kosninganna á laugardaginn. Samtal okkar skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta lagi um reynslu Kjartans af kosningum á 26 ára ferli hans sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, á tímabilinu 1980 til 2006 þegar hann stjórnaði kosningabaráttu flokksins 13 sinnum. Í öðru lagi kosningabaráttu líðandi stundar og í þriðja lagi um úrslit komandi kosninga. Þátturinn verður sýndur næst klukkan 12.00 á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Ég hef um langt árabil verið áskrifandi að breska vikuritinu The Spectator. Hef ég fengið það sent í pósti og almennt hefur það borist innan þolanlegs tíma frá útgáfudegi. Þetta hefur hins vegar breyst til verri vegar undanfarna mánuði og þegar ég fékk tvö gömul tölublöð samtímis ákvað ég að senda tölvubréf til áskriftardeildarinnar og kvarta. Ég sagði reyndar að fyrir mig og útgefanda blaðsins væri hagkvæmast og einfaldast að ég gerðist app-áskrifandi, það er fengi blaðið aðeins sent inn á iPad eða iPhone, hvort slík þjónusta væri í boði,

Innan sólarhrings hafði ég fengið svar um að ég gæti gerst app-áskrifandi og kostaði áskriftin 65 pund á ári í stað 155 punda fyrir venjulega áskrift, það er að prentútgáfunni, net- og app-útgáfunni. Ég þyrfti hins vegar að hringja til þeirra til að ganga frá breytingu á áskriftinni vegna viðkvæmra upplýsinga sem ekki mætti senda í tölvubréfi.

Ég hringdi og þá kom í ljós að áskriftadeildin er tvískipt – prentdeild og rafræn deild. Rafræna deildin var mín deild og þar var ég spurður hvort ég vildi bara app-áskrift eða einnig  netáskrift, en app- og netáskrift kostaði 75 pund. Ég valdi bara app-áskriftina fyrir 65 pund. Gengið var frá endurgreiðslu á prentáskriftinni og skráningu á app-áskriftinni og nú hef ég fengið fyrirmæli um hvernig ég eigi að virkja hana.

Ég segi frá þessu hér til að lýsa þróun í fjölmiðlaheiminum. Ég er einnig net- og app-áskrifandi að Le Monde.

Nú fletti ég þessum blöðum um leið og þau birtast í netheimum og ergi mig ekki lengur yfir að dragist að þau komi með póstinum.