18.6.2013 21:58

Þriðjudagur 18. 06. 13

Í febrúar 2012 keyptum við miða á Hring Niflungans eftir Richard Wagner í Bastillu-óperunni í París. Í kvöld var for-óperan, Rínargullið, sýnd við gífurlega hrifningu áheyrenda.

L'Opéra Bastille stendur við Bastillutorgið í París. Carlos Ott, kanadískur-ungverskur arkitekt, var í nóvember 1983 valinn til að teikna hana eftir alþjóðlega samkeppni með þátttöku um 1.700 arkitekta. Húsið var tekið í notkun 13. júlí 1989. Salurinn rúmar 2.700 manns, hljómburður er góður og sviðsbúnaður er sagður með eindæmum fullkominn. Hljómsveitargryfjan tekur 130 manns og komu hljóðfæraleikararnir allir upp á sviðið í lok sýningar í kvöld og voru hylltir innilega með söngvurunum.

Rínargullið er um tvær og hálfklukkustund í flutningi, án hlés. Philippe Jordan er hljómsveitarstjóri en Gustav Krämer leikstjóri.

Nú verður Hringurinn fluttur allur í Bastillu-óperunni fram til og með 26. júní, fjórar óperur um 15 klukkustundir samtals. Fyrstu sýningar í þessa einu heildarsýningu í París í tilefni af 200 ára afmæli Richards Wagners hófust í Bastilluóperunni árið 2010.