2.10.2013 22:10

Miðvikudagur 02. 10. 13

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í ræðu sinni í stefnuumræðunum á alþingi í kvöld að úttekt á örlögum sparisjóðanna kostaði 500 milljónir króna. Skýrsla um málið væri væntanleg. Hann vék einnig að skýrslu um Íbúðalánasjóð sem hefði verið rædd í stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd þingsins þar sem hún sætti mikilli gagnrýni. Leidd voru rök að óvönduðum vinnubrögðum. Kostaði ekki 250 milljónir króna að semja þá skýrslu?

Í umræðum um íbúðalánaskýrsluna kom fram að þeir sem sæta gagnrýni í henni hefðu ekki fengið að njóta andmælaréttar. Rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu gaf aðilum andmælarétt en farið var með andmæli þeirra á þann veg að þau eru ekki hluti af hinum prentuðu gögnum frá nefndinni.

Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna gerðu meiri athugasemdir við stílinn á stefnuræðu forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar en efni. Þetta sannaði enn að það eitt að fara ótroðnar slóðir dugar til að afvegaleiða, jafnvel forystumenn í stjórnmálum ef þeir hafa ekki sett sér skýrt markmið. Stjórnarandstaðan hefur það eitt fram að færa að elta ráðherrana. Afhroðið í kosningunum kippti fótunum undan flokkunum og þeim hefur ekki enn tekist að fóta sig að nýju.

Í DR1 var í kvöld sýndur fyrsti þáttur í 12 þátta röð þriðju lotu af Homeland sem hefur fengið góða dóma og mikið áhorf í heimalandinu, Bandaríkjunum. Þáttaröðin snýst um átök CIA við  hryðjuverka- og undirróðursmenn og auk þess átök innan CIA og bandaríska stjórnkerfisins. Þessi fyrsti þáttur var frumsýndur í Bandaríkjunum sunnudaginn 29. september. Um er að ræða bandaríska endurgerð á ísraelskri þáttaröð.