3.10.2013 22:45

Fimmtudagur 03. 10. 13

Skýrt var frá því í dag að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hefði tekið að sér að leiða Albani inn í Evrópusambandið. Blair rekur 200 manna fyrirtæki sem kemur á tengslum og greiðir úr flækjum sem kunna að koma til sögunnar við úrlausn erfiðra viðfangsefna auk þess sem Blair og félagar starfa sem einskonar almannatenglar fyrir þá sem þurfa að vinna sig í álit á alþjóðavettvangi.

Tony Blair var á blaðamannafundi í Tirana, höfuðborg Albaníu, í dag með sósíalistanum Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu. Óljóst er hvað ráðgjöf fyrirtækisins Tony Blair Associates kostar Albani. Rama gaf raunar til kynna að Blair ætlaði að sinna málefnum Albaníu sjálfur og persónulega sem flokksbróðurgreiða við sig.

Miðað við vandræðaganginn í ESB-aðildarviðræðunum fyrir Íslands hönd undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar er undarlegt að flokksbræðrum Blair hér á landi skyldi ekki hafa dottið í hug að kalla hann á vettvang til aðstoða sig við að komast inn fyrir gullna hliðið.

Hér stóðust engar tímasetningar og ESB-menn ýttu á undan sér að hefja viðræður um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Óvíst er að Blair hefði tekið að sér að vinna fyrir Össur og félaga, hann hefði orðið að kynna sér á hvern hátt var staðið að ESB-aðildarumsókninni og hefði að líkindum sagt sig frá verkinu eftir þau kynni. Það sækir nefnilega engin ríkisstjórn um aðild að ESB án þess að vilja verða aðili.