10.10.2013 22:55

Fimmtudagur 10. 10. 13

Nú er Morgunblaðið hætt að birta aðrar norrænar sjónvarpsdagskrár en þá sænsku. Eftir að dagskrá DR1 hætti að birtast í blaðinu varð að leita annarra leiða til að átta sig á hvað væri til sýnis á fyrstu rás danska ríkissjónvarpsins sem er föst fylgirás hjá sem hafa myndlykil frá Símanum. Hvers vegna skyldi ritstjórn Morgunblaðsins hafa minnkað þessa þjónustu við lesendur sína?

The Wall Street Journal sem er stærsta „alvarlega“ dagblað Bandaríkjanna ber nafn sitt vegna þess að það varð upphaflega til í kringum tölur um viðskipti á Wall Street. Dragi dagblöð úr vissri grunnþjónustu við lesendur fækkar þeim sem sjá ástæðu til að kaupa eða lesa blaðið daglega. Þegar fjölbreytni hefur aukist í aðgangi fólks að sjónvarpsstöðvum eykst ástæða fyrir dagblöö eða vikublöð til að leggja sig eftir þessum dagskrám og birta þær auk þess að leggja sig fram um kynningu á góðu efni sem þar er að finna innan lands og utan.

Nú er hafin sýning á fjórðu lotu þáttaraðarinnar Downton Abbey og eru þættirnir sýndir á sunnudagskvöldi. Á vefsíðu The Daily Telegraph á mánudögum er ítarlega fjallað um þáttinn kvöldið áður og lagt mat á hann og ber sá texti með sér að frásögninni séu gerð áberandi skil i prentaðri útgáfu blaðsins.