Þriðjudagur 05. 11. 13
Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hélt erindið „Réð Kolkrabbi atvinnulífi á Íslandi fram undir lok 20. aldar? Og hvað tók þá við?“ á málstofu viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands í hádeginu í dag. Hann ræddi þá kenningu sem til dæmis má sjá í ritgerð eftir Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í New Left Review, að íslenskt atvinnulíf hafi fram á tíunda áratug 20. aldar verið í höndum Kolkrabba eða fjölskyldanna fjórtán, en síðan þriggja viðskiptasamstæðna.
Sigurbjörg er kennari við Háskóla Íslands. Hún lét því miður ekki sjá sig á fyrirlestrinum. Hefði verið fróðlegt að fá viðbrögð hennar við afhjúpun Hannesar Hólmsteins á hroðvirknislegum vinnubrögðum og röngum fullyrðingum hennar og Wades. Augljóst er að þau slá fram fullyrðingum sem standast ekki þegar litið er á hlutlæg gögn sem Hannes dró fram máli sínu til stuðnings.
Hannes Hólmsteinn á lof skilið fyrir dugnað sinn við að bregða ljósi á aðdraganda hrunsins fyrir fimm árum á grundvelli rannsókna og upplýsingaöflunar sem einkennist af hugkvæmni og nákvæmni. Niðurstaða hans er að hefði íslenska fjármálakerfið fengið sambærilega fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Bandaríkjanna og danska kerfið hefði hið íslenska staðist áraunina. Þá skipti einnig sköpum að bresk stjórnvöld beittu tvo íslenska banka í Bretlandi heljartökum rétt áður en þau ákváðu að dæla peningum inn í breska bankakerfið til að bjarga því.
Spurningunni um hvað olli þessari afstöðu stjórnvalda í Bretlandi og Bandaríkjunum hefur ekki verið svarað. Í Bretlandi var um meðvitaða ákvörðun að ræða – hvers vegna var hún tekin? Studdust bandarísk yfirvöld við ráðgjöf frá London? Var verið að ná sér niðri á íslenskum bönkum? Var um óvild í garð íslenskra stjórnvalda að ræða? Vonandi tekur Hannes Hólmsteinn sér fyrir hendur að leita svara við þessum spurningum.