20.5.2014 22:50

Þriðjudagur 20. 05. 14

Það er engu líkara en ætlunin sé að murka lífið úr Icelandair. Hvernig stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækisins dettur í hug að ganga fram á þann hátt sem lýst er í fjölmiðlum vekur undrun.  Spurningin er hve langan tíma tekur að spilla svo orðspori Icelandair að fólk taki að forðast það á netinu og annars staðar.

Annað sem vekur undrun í fréttum dagsins er könnun í Morgunblaðinu sem sýnir að fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur minnkað milli kannanna og hann fengi aðeins þrjá borgarfulltrúa kjörna, flokkurinn mælist hinn þriðji stærsti í höfuðborginni á eftir tvíburunum Samfylkingu og Bjartri framtíð.

Hið einkennilega við kosningabaráttuna í Reykjavík er að ekki hafa verið dregnar skýrar línur á milli fylkinga á þann veg að kjósendur átti sig á vali milli kosta og málefna.

Samfylkingin boðar stefnu í húsnæðismálum sem er dæmd til að mistakast, hún er í anda sósíalistaflokka í Evrópu sem láta eins og þeir geti í krafti skattheimtu breytt þjóðfélagsgerðinni. Síðasta misheppnaða tilraunin í þessa veru gerðu sósíalistar í Frakklandi og eru nú á flótta undan henni.

Umræður hafa verið um byggingar í nágrenni Hörpu og Landsbankinn keypti nýlega lóð þar fyrir einn milljarð. Hvernig verður skipulag á þessum stað? Verður þrengt að norðurenda Lækjargötu þannig að allt umhverfi Arnarhóls fær á sig nýjan svip? Hvers vegna eru ekki birtar myndir af þessu svæði eins og myndin á dögunum sem sýndi hvernig unnið er að eyðileggingu götumyndar Frakkastígs við Skúlagötu?