20.6.2014 22:10

Föstudagur 20. 06. 14

Viðtal mitt við Rósu Guðbjartsdóttur, formann bæjarráðs Hafnarfjarðar, á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Í bandarískum fjölmiðlum og víða annars staðar velta menn fyrir sér hvort Hillary Clinton hafi sent frá þriðju bók sína Hard Choices til að skapa sér stöðu og afla sér fylgis fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Í nýjasta hefti breska vikuritsins The Spectator birtist ritdómur um bókina eftir Matthew Walther. Af honum má ráða hann mundi ekki kjósa Clinton hefði hann kosningarétt. Hann segir:

„Draugar Clinton hafa skrifað bók fyrir fólk án mikillar reynslu af bókum. Raunar hafa þeir skrifað bók fyrir fólk án mikillar reynslu af fólki […] Tiltölulega snemma lesum við um rifrildi tveggja starfsmanna utanríkisráðuneytisins sem semja frið og taka til við að hittast um helgar „til að ræða stefnumörkun þegar þeir fá sér egg og heitt súkkulaði“. Eru þeir sérvitringar? Af öðrum hnöttum? Eða hafa höfundar okkar sem fengu í hendurnar leiðinlega frásögn um tilviljanakennd samtöl yfir kaffi án koffíns einfaldlega fært hana í stílinn?

Annars staðar erum við frædd um að „í einkahádegisverði í Yellow Oval Room  á annarri hæð í Hvíta hússins“ hafi Clinton rætt við Michelle Obama „um hvernig forsetafjölskyldan hefði komið sér fyrir og áform hennar um að berjast gegn offitu barna með heilsusamlegra mataræði og hreyfingu“. Ég spyr: Tala einhverjir saman á þennan hátt? „Hæ Michelle.“ „Já, halló Hillary.“ „Jæja, hvernig gengur?“ „Ekki sem verst.“ „Hvað ertu að sýsla?“ „Ekkert sérstakt. Mér datt bara í hug að berjast gegn offitu barna með heilsusamlegra mataræði og hreyfingu.“ Gervi-staðreyndir eins og þessar og hundruð annarra er bornar á borð til að gera Clinton mannlegri en gera hana aðeins undurförlari en hún er líklega í raun.

Hard Choices er löng, róleg, leiðinleg bók. Við lesturinn langaði mig til að sýna af mér illsku. Mig langaði til að setja eitthvað ógnandi á spilarann og hækka hljóðið. Mig langaði til að stela ís í brauðformi af barni eða sparka í kettling. Mið langaði til að kveikja í fimm eða sex hægt brennandi sígarettum, kasta þeim í pósthólf nágranna minna og kveikja í póstkortum og gluggaumslögunum þeirra. Bílstuldur, íkveikja, jafnvel morð, allt kom þetta í huga minn.“

 Ég held að lestur þessarar bókar bíði hjá mér.