12.9.2014 22:30

Föstudagur 12. 09. 14

Barack Obama Bandaríkjaforseti fór ekki að ráðum þeirra sem sögðu að hann ætti ekki að kalla alla bandaríska hermenn heim frá Írak. Hann vildi draga skil á milli sín og Íraksstríðsins til að ábyrgðin á því hvíldi ótvírætt á herðum George W. Bush, forvera hans.

Nú stendur Obama fyrir árásum á nýtt Íslamskt ríki undir forystu samnefndra hryðjuverkasamtaka sem hafa lagt undir sig land frá Sýrlandi til Íraks. Að kvöldi miðvikudags 10. september kynnti Obama bandarísku þjóðinni að loftárásir Bandaríkjahers gegn Íslamska ríkinu kynnu að standa lengi. Yfirlýsing forsetans leiðir til aðildar Bandaríkjamanna að flóknum, mannskæðum átökum í Mið-Austurlöndum þar sem þeir stilla sér að þessu sinni við hliðina á Írönum í innbyrðis átökum ólíkra trúarfylkinga múslíma, shíta (minnihlutahóps) og súnníta (meirihlutahóps). Að baki Íslamska ríkinu eru súnnítar.

François Hollande Frakklandsforseti er dyggasti stuðningsmaður Baracks Obama meðal Evrópumanna í átökunum við Íslamska ríkið. Í París rökstyðja menn afskipti Frakka með orðum eins og þessum: „Ekki er unnt að líða að menn komi sér upp skjóli fyrir íslamista í fimm tíma flugfjarlægð frá París.“

Nýlega mátti heyra viðtal í sjónvarpi við mann tengdan Bandaríkjaher. Hann var spurður hvað hann segði um yfirlýsingu Obama: „Engin [hermanna]stígvél verða send á landi“ gegn Íslamska ríkinu.

Hermaðurinn svaraði á þann veg að Bandaríkjamenn hefðu nú þegar 1.600 menn á þessum slóðum en ef til vill væru þeir í strigaskóm.