11.10.2014 21:40

Laugardagur 11. 10. 14

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var látið eins og það þyrfti sérstaka lagasetningu eða ákvörðun dómara til að loka vefsíðu í þágu hryðjuverksamtakanna Íslamska ríkið sem skráð er á íslenskt lén.

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sagði að fyrirtækið Advania hefði lokað vefsíðunni, hýsing hennar bryti í bága við viðskiptaskilmála Thor Data Center, í eigu Advania, og því hefði henni verið lokað.

Þetta ætlaði Advania að gera þrátt fyrir að það kynni þar með að eiga yfir höfði sér lögsókn vegna brots á tjáningafrelsi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu, en málið var sagt til athugunar hjá dómsmálaráðuneytinu.

Á ruv.is segir laugardaginn 11. október:

„Vefurinn nefnist khilafah.is og var skráður á Íslandi í september. Sá sem skráður [er] fyrir léninu kallar sig Azym Abdullah en hann er til heimilis á Nýja Sjálandi. Lénið er skráð hjá ISNIC og vefsíðan hýst af Thor Data Center, sem aftur er hýst af Advania. ISNIC annast skráningu, rekstur og stjórnun landslénsins .is. Framkvæmdastjóri ISNIC sagði í hádegisfréttum að eina leiðin til þess að loka léninu væri ef stjórnvöld krefðust þess eða þá að dómsúrskurður lægi fyrir.“

Hér má lesa það sem sagt er um þetta mál á Evrópuvaktinni.

Í dag sagði Ögmundur Jónasson að alþingi hefði ekki samþykkt tillögu frá sér sem ráðherra árið 2011. Hún hefði komið í veg fyrir að Azym Abdullah hefði getað skráð lén á Íslandi. Þar hefði verið sett sem skilyrði fyrir að unnt væri að nota .is að viðkomandi hefði tengsl við Ísland. Hagsmunaaðilar, þar á meðal ISNIC, og drjúgur hluti þingmanna hefði lagst gegn frumvarpinu.

Allt er þetta ruglingslegt og ber með sér að verk sé óunnið til að marka og framkvæma skýra stefnu í netvörnum hér á landi og kynna hana á viðunandi hátt. Margar fyrirmyndir eru til frá útlöndum um hvernig standa beri að slíkum vörnum, þær eru hins vegar á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.