8.11.2014 19:30

Laugardagur 08. 11. 14

Í dag var efnt til málstofu um varðveislu Múlakots í Fljótshlíð í félagsheimili okkar Fljótshlíðinga, Goðalandi. Hófst dagskráin raunar í Múlakoti sjálfu klukkan 14.00 með kynningu á garðinum, bæjarhúsunum og því sem þau hafa að geyma. Þar var fjöldi fólks þrátt fyrir kalda norðangjóluna, lofthiti var um 2° C en þurrt sem auðveldaði kynningu á gömlu húsunum. Þau hefðu farið illa ef allur þessi fjöldi hefði farið um þau á blautum skóm – en fyrir ári var alhvít jörð hér í Fljótshlíðinni 8. nóvember.

Margir fluttu stutt erindi í málstofunni sem stóð frá 15.20 til 17.30 og sóttu hana tæplega 100 manns. Pétur Ármannsson, arkitekt við Minjastofnun Íslands, ræddi gildi varðveislu minja á borð við Múlakot. Hjörleifur Stefánsson arkitekt færði skýr rök fyrir gildi þess að varðveita húsin, þau má í raun rekja aftur í aldir. Dagný Heiðdal listfræðingur hjá Listasafni Íslands sagði frá málverkum í eigu safnsins sem tengjast Múlakoti. Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Garðyrkjuskóla Íslands, fjallaði um Múlakotsgarðinn. Vibeke Nörgaard Nielsen, rithöfundur frá Danmörku, sagði frá sambandi Johannes Larsens myndlistarmanns við Múlakot og Ólaf Túbals listmálara sem þar bjó. Larsen myndskreytti útgáfu Íslendingasagna á dönsku 1930 í tilefni 1000 ára afmælis alþingis. Hefur frú Nielsen ritað bók um ferðir Larsens og er hún væntanleg á íslensku. Þá töluðu þeir Sverrir Magnússon, framkvæmdastjóri Skógasafns, og Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, en safnið og sveitarfélagið eru aðilar að sjálfseignarstofnuninni Gamli bærinn í Múlakoti sem formlega var stofnuð í lok málstofunnar með þátttöku hjónanna Sigríðar Hjartar og Stefáns Guðbergssonar sem gefa mannvirkin í Múlakoti og 0,5 hektara lands. Þau töluðu bæði í málstofunni en Sigríður hefur ritað BA-ritgerð í sagnfræði um Múlakot.

Augljóst er af hinni miklu þátttöku í þessum viðburði að mikill áhugi er víða á að Múlakot verði varðveitt enda eiga margir minningar þaðan og saga húsanna þar tengist mjög samgöngusögu þjóðarinnar því að vísi að hótelrekstri þar má rekja til ferða yfir Markarfljót með ferjum áður en það var brúað árið 1933. Þá tel ég að þar eigi að minnast aðgerða sem gripið var til um svipað leyti með gerð varnargarða við Markarfljót sem stöðvuðu rennsli þess vestur með Fljótshlíðinni.