22.3.2015 16:30

Sunnudagur 22. 03. 15

Í tilefni af því að Mikhail Vanin, sendiherra Rússlands í Danmörku, hótar Dönum kjarnorkuárás taki þeir þátt í eldflaugavörnum NATO í Evrópu rifjar Uffe Ellemann-Jensen, fyrrv. utanríkisráðherra Dana, upp í bloggi sínu  að fyrir rúmri hálfri öld, það er 28. mars 1957, hafði Búlganín, þáverandi forseti Sovétríkjanna, í hótunum við Dani ef þeir leyfðu að bandarískar skotflaugar með hefðbundnum sprengjum yrðu settar niður í Danmörku.

Ellemann-Jensen segir að hótun sendiherrans sé áminning til danskra stjórnvalda um nauðsyn þess að setja á laggirnar nefnd til að endurmeta öryggismál Dana. Síðasta samkomulag dönsku stjórnmálaflokkanna um varnir landsins sé reist á þeirri skoðun að um óráðna framtíð sé ólíklegt að Dönum verði hótað úr næsta nágrenni sínu. Vanin sendiherra hafi minnt á að heimurinn hefur breyst

Fyrir dyrum stendur hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra að kynna á alþingi tillögu til ályktunar um þjóðaröryggi. Að baki henni er áhættumat sem unnið var af nefnd sem lauk störfum árið 2009. Er augljóst að mat frá þeim tíma er næsta haldlítið árið 2005 þegar litið er til hernaðarlega þátta.

Á tímum kalda stríðsins sættu Íslendingar hótunum um kjarnorkuárás frá Sovétríkjunum vegna ítrekaðs áróöurs meðal annars frá þingmönnum Alþýöubandalagsins, Svavari Gestssyn og Ólafi Ragnari Grímssyni, um að líklega mætti finna kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Bendi ég til dæmis á grein um þetta efni sem ég ritaði í Morgunblaðið hinn 28. maí 1981 og lesa má hér. 

Í Jyllands-Posten í dag má lesa um viðbrögð við hótun rússneska sendiherrans, sjá hér. Eins og þarna kemur fram vekja yfirlýsingar Kremlverja og sendiboða þeirra um kjarnorkuvopn og hugsanlega beitingu þeirra meiri en óhug en ella fyrir þá sök að Rússar standa almennt illa að vígi fjárhagslega og hernaðarlega. Þeir kunna því að treysta meira á kjarnorkuvopn en áður og digurbarkalegar hótanir þeirra í garð annarra hafa á sér annan blæ en á tímum kalda stríðsins þegar hótanir þeirra og viðbrögð voru næsta fyrirsjáanleg.