17.4.2015 19:30

Föstudagur 17. 04. 15

Þegar Evrópuvaktin var enn við lýði birtust þar reglulega fréttir um að Grikkir stæðu við hengiflugið og allt benti til þess að þeir féllu í hyldýpið. Á síðustu stundu var þeim þó bjargað. Spár um yfirvofandi gjaldþrot heyrast hins vegar áfram.

Fimmtudaginn 16. apríl var haft eftir Christine Lagarde, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), að Grikkir yrðu að greiða afborgun af láni hjá sjóðnum hinn 12. maí 2015. Undan því yrði ekki vikist. Þetta er klippt og skorið: annaðhvort borga Grikkir eða gríska ríkið verður gjaldþrota.

Í Berlingske Tidende segir í dag að gríska ríkisstjórnin hafi hreyft því með aðstoð milligöngumanna hvort fresta mætti afborguninni 12. maí. Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, segir þetta rangt. Bent er á að yfirlýsing Lagarde beri með sér að um sé að ræða viðbrögð við spurningu og svarið sé afdráttarlaust. Hún sagði að innan AGS hefðu menn aldrei fyrr staðið frammi fyrir ósk fulltrúa lands með þróað hagkerfi um greiðslufrest og það yrði ekki orðið við slíkum óskum.

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hefur tvisvar sinnum í þessari viku farið þungum orðum um Grikki.

Standard & Poor´s lækkaði lánshæfismat Grikklands úr B- í CCC+ miðvikudaginn 15. apríl – aðeins Úkraína og Venezúela standa verr í bókum matsfyrirtækisins. Viðbrögð urðu þau á mörkuðum að vextir á tveggja ára grískum ríkisskuldabréfum fóru í 26% og er það hæsta vaxtastig frá því að grísk stjórnvöld voru knúin til að grípa til efnahagsumbóta.

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, segir að úrsögn úr evru-samstarfinu sé ekki á döfinni heldur málamiðlun án þess að nokkrum séu settir afarkostir. Þrátt fyrir allar ráðstafanir í Grikklandi undanfarin ár eru skuldir Grikkja 175% af VLF og nú er hallinn á gríska ríkissjóðnum 12,2%. Hinn 12. maí eiga Grikkir að greiða AGS einn milljarð evra.

ESB er frægt fyrir að þæfa mál og velta lausnum á undan sér. Sambandið getur til dæmis ekki svarað bréfi utanríkisráðherra Íslands frá 12. mars 2015 og afmáð Ísland af lista yfir umsóknarríki. Það er þó smámál í samanburði við hrikalega stöðu Grikkja þar sem boltinn er látinn velta nema Christine Lagarde muni nú stöðva hann.