2.5.2015 19:15

Laugardagur 02. 05. 15

Síminn sendir beint út frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á frönsku sjónvarpsstöðinni MezzoliveHD er klassísk tónlist í fyrirrúmi.

Í dag var Valkyrjan eftir Wagner í uppfærslu Metropolitan-óperunnar til dæmis sýnd þar og meðal þeirra sem sungu voru Siegmund: Jonas Kaufmann Sieglinde: Eva-Maria Westbroek, Hunding: Hans-Peter König, Óðinn: Bryn Terfel og Brynhildur: Deborah Voigt. James Levine stjórnaði en Robert Leparge annaðist uppsetninguna sem er ueinstaklega glæsileg. Á morgun má sjá Parsifal eftir Wagner á MezzoliveHD einnig í uppfærslu Metropolitan með Jonas Kaufmann í aðalhlutverki.

Þetta var útúrdúr. Útsendingarnar frá tónleikum sinfóníunnar í Hörpu hafa vakið þá spurningu hjá mér hvort heppilegt sé að hafa svartan lit á senugólfinu í Eldborg. Yfirbragðið verður mun drungalegra þegar mynd birtist af sviðinu en þegar gólf senunnar er með ljósum lit.

Salur tónlistarhússins í Luzern í Sviss, sem oft sést í Mezzo-stöðinni, er hvítur, sem er verri kostur en litur veggjanna í Eldborg. Í Luzern er ljós litur á senugólfinu og er bjartara yfir öllu þegar sést til hljómsveitarinnar en í Eldborg.

Síminn stundar nú tilraunasendingar frá sinfóníutónleikum. Sendingarnar á ekki aðeins að nýta til að huga að tækni heldur einnig umbúnaði á sviði og framgöngu hljóðfæraleikara og stjórnanda. Hér er að skapast ný vídd í starfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem ber að nýta á sama hátt og gert hefur verið hjá hljómsveitum í frábærum tónleikasölum annars staðar.