7.5.2015 20:15

Fimmtudagur 07. 05. 15

Samtal mitt á ÍNN frá 29. apríl við Arnar Þór Jónsson, lektor í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík, er nú komið á netið og má sjá það hér. 

Á netinu hafa undanfarið verið reifuð sjónarmið til að greina á milli hægri og vinstri á stjórnmálavettangi í ljósi fullyrðinga um vinstri slagsíðu í félagsfræði 303 í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hér verður ekki tekin afstaða til deilunnar en vitnað í það sem Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, hafði fram að færa. Hann sagði meðal annars:

„Ég hef ekki tekið eftir að dæmigerðir hægri (íhalds-) flokkar séu mikið að hafa áhyggjur af mannréttindum; áherslan er miklu fremur á þjóðaröryggi og varnir ýmis konar, þar á meðal til dæmis hleranir og „forvirkar rannsóknarheimildir“ sbr. Björn Bjarnason.“

Þetta er hrokafullur málflutningur. Hér á síðunni má sjá hvaða sjónarmið ég hef kynnt varðandi öryggismál og forvirkar rannsóknarheimildir. Að í orðum mínum felist óvirðing við mannréttindi er ekki annað en ómerkilegur, órökstuddur áróður.

Sé tekið mið af orðum Vilhjálms eru mestu hægrimenn Evrópu nú við völd í Frakklandi. Manuel Valls, forsætisráðherra sósíalista, flutti sjálfur frumvarp til laga um stórauknar forvirkar rannsóknarheimildir franskra njósna- og öryggisstofnana sem neðri deild franska þingsins samþykkti með miklum meirihluta sama dag og Vilhjálmur vildi lýsa sig og aðra sósíalista meiri mannréttindavini en hægri menn. Seinheppni forystumanna Samfylkingarinnar ríður ekki við einteyming.