31.8.2015 18:40

Mánudagur 31. 08. 15

Blaðið La Nuova í Feneyjum birti föstudaginn 28. ágúst frétt þess efnis að héraðs-stjórnsýsludómstóll hefði komist að þeirri niðurstöðu að borgarstjórn Feneyja hefði haft fullan rétt til að loka íslenska skálanum á Feneyja-tvíæringnum hinn 22. maí sl. Þar var að finna frá 8. maí verkið Moskuna eftir Christian Büchel, í afhelgaðri kirkju.  Segir í dóminum að hér hafi ekki verið um sýningaverk ræða heldur stað til trúariðkana. Dómstóllinn sagði að áfram mætti nota hina afhelguðu kirkju, Santa Maria della Misericordia, til að sýna listaverk enda verði farið að fyrirmælum borgaryfirvalda.

Lögmaður borgaryfirvalda, Maurizio Ballarin, fagnar niðurstöðu dómstólsins. Gefið hafi verið leyfi fyrir listaverk en í stað þess hafi komið bænahús, þess vegna hafi verið lögmætt að loka skálanum.

Björg Stefánsdóttir, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar sagði í júlí að fyrir dóminn yrðu lögð álit frá listfræðingum og farið yrði fram á skaðabætur frá borgaryfirvöldum í Feneyjum enda væri þetta mikið tjón. Framlag ríkisins til verkefnisins næmi 24 milljónum kr. , afganginn yrði kynningarnmiðstöðin að finna hjá einkaaðilum.

Í rökstuðningi fagráðs kynningarmiðstöðvarinnar sem valdi verkið segir: 

„Christoph Büchel er afar áhugaverður myndlistarmaður, sem hefur skýra afstöðu gagnvart samfélaginu og spyr áleitinna spurninga er varða samsetningu þjóðfélagsins og hlutverk stjórnvalda. Verk hans eru afdráttarlaus og eiga erindi jafnt í íslensku sem alþjóðlegu samhengi. Í verkum sínum sýnir hann fram á mátt listarinnar til að hreyfa við og vekja fólk til umhugsunar um stöðu og þróun samfélaga, skilgreiningar og sjálfsmynd. Með vali á framlagi Christoph Büchel og Nínu Magnúsdóttur lætur Ísland sig alþjóðleg málefni varða með framlagi sínu.”

Mikilli og undarlegri raunasögu er lokið með útskúfun verks á tvíæringnum. Því var greinilega var ætlað að storka heimamönnum. Það tókst og þeir létu ekki bjóða sér það heldur lokuðu íslenska skálanum án þess að brjóta lög þar sem til varð bænahús múslíma í afhelgaðri kaþólskri kirkju.