7.9.2015 21:20

Mánudagur 07. 09. 15

Evrópustofu var lokað þriðjudaginn 31. ágúst. Á ruv.is mátti lesa þann dag:

Starfsemi Evrópustofu var hætt í dag. Fráfarandi framkvæmdastjóri segir það skýran vilja Evrópusambandsins að starfa ekki í andstöðu við vilja stjórnvalda. […] Reksturinn var á sínum tíma boðinn út en samningurinn rann út í dag og ákveðið var að láta gott heita, segir Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Evrópustofu. „Það er alveg skýr vilji Evrópusambandsins að starfa ekki í andstöðu við vilja stjórnvalda í hverju landi fyrir sig“.

Þess vegna var dyrum Evrópustofu skellt í lás í síðasta sinn í dag. Dóra segir að verði viðræður teknar upp að nýju um aðild Íslands að ESB sé mögulegt að upplýsingaskrifstofa verði opnuð hér á landi á ný.“

Þessi tónn um Evrópustofu frá ábyrgðaraðila hennar er í andstöðu við leikritið sem sett var á svið þegar hún var opnuð í ársbyrjun 2012. Ég var á ferð í Berlín í október 2011 og fór í fyrirtækið Media Consulta sem rak stofuna á vegum stækkunardeildar ESB. Hafði ég pantað viðtal hjá fyrirtækinu til að kynna mér áform þess á Íslandi. Við komuna þangað var ég drifinn inn á fjölmennan morgunverðarfund þar sem Birna Þórarinsdóttir síðar framkvæmdastjóri Evrópustofu sat og fleiri. Síðar sagði hún viðtali við Pressuna að ég hefði verið boðflenna á þessum fundi! Var það liður í markvissri tilraun til að gera allt tortyggilegt sem ég sagði um tilurð Evrópustofu. Á fundinum í Berlín sagði forstjóri Media Consulta að samkomulag hefði verið milli stækkunardeildarinnar og ráðuneytisins að opna skrifstofuna. Hún starfaði alls ekki í óþökk ráðuneytisins.

Málið var rætt á alþingi, þar sagði Össur utanríkisráðherra: „Allt frumkvæði að Evrópustofu kom frá Brussel, eins og ýmislegt gott sem eflt hefur hag Íslands.“ Hann sagði að spyrja ætti Evrópustofu um uppruna hennar. Lét hann eins og utanríkisráðuneytið hefði ekkert um málið vitað. Allt var þetta hluti hins sameiginlega blekkingarleiks utanríkisráðuneytisins og stækkunardeildar ESB.

Nú er ljóst að ESB-viðræðunum hafði verið siglt í strand þegar Evrópustofa var opnuð. Starfsemin var frá upphafi sóun á fé ESB-skattgreiðenda og engum til gagns nema Media Consulta og starfsmönnum fyrirtækisins í Berlín og Reykjavík.