21.11.2015 21:00

Laugardagur 21. 11. 15

Samtal mitt á ÍNN 18. nóvember við Bergsvein Birgisson rithöfund er komið á netið og má sjá það hér.

Páll Winkel fangelsismálastjóri er sakaður fyrir mannréttindabrot vegna þess að hann framfylgir reglum stofnunar sinnar á Kvíabryggju og færir rök fyrir máli sínu. Dómarar eru sakaðir um að fara ekki að lögum þegar þeir fella dóma um menn sem tengjast hrunsmálum. Sérstakur saksóknari hefur árum saman sætt gagnrýni vegna þessara mála. Ráðist er á ráðherra sem flutti frumvarpið um sérstakan saksóknara. Allir eru þessir aðilar á einn eða annan hátt sakaðir um að hafa rangt við vegna þess að ákveðnir einstaklingar hafa verið ákærðir eða hlotið dóma. Látið er í veðri vaka að allt sé þetta að ósekju.

Í þessari gagnrýni felst yfirlæti og ofmetnaður í krafti mikillar auðsöfnunar og þeirrar afstöðu að hún skapi sérstöðu og vald. Þetta viðhorf stuðlaði að ofvexti íslensku bankanna og síðan hruni þeirra.

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi um Baugsmálið lýsi ég hvernig mál gengu fyrir sig næstum dag frá degi eftir að lögregla hóf rannsókn hjá Baugi þegar henni barst kæra frá Jóni Sullenberger, kæra, sem talsmenn Jóns Ásgeirs og co. sneru síðan í pólitískar ofsóknir í von um að bæta stöðu sína fyrir dómstólunum.

Eftir hrun hafa verjendur vegna efnahagsbrota ekki gripið til þess að tala um pólitískar ofsóknir á hendur skjólstæðingum sínum heldur er ráðist á saksóknara, dómara og nú fangelsismálastjóra. Hann segir að almannatenglum sé beitt til að stuðla að hagstæðum orðum hans við eða um fanga.