16.1.2016 15:00

Laugardagur 16. 01. 16

Stöð 2  birti á dögunum viðtal við þrjá hrunmáls-fanga á Kvíabryggju sem hafa kvartað undan fangelsismálastjóra, saksóknara og dómurum eftir að þeir voru sviptir frelsi í nokkur ár. Ákvörðun 365 um að viðtalið skyldi tekið og birt hefur vakið umræður og gagnrýni. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, bregst við gagnrýninni í Fréttablaðinu, flaggskipi fjölmiðlaveldis Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, í dag og segir í forystugrein blaðsins:

„Ásakanir um herferð gera lítið úr fréttamanninum sem tók viðtalið. Hann er raunar þeirrar gerðar að hann tekur slíkt ekki inn á sig – enda standa verk hans fyrir sínu. Engu að síður er rétt að undirstrika, að hvorki hann, né aðrir fréttamenn 365, leggjast svo lágt að gerast peð í herferð manna utan úr bæ. Fréttastofa 365 sannar það á hverjum einasta degi, þótt fólk sjái náttúrulega draug ef það vill sjá draug. Það er gömul saga og ný að fólk ætli þeim á annað hundrað blaðamönnum sem starfa hér á landi að vera viljalaus verkfæri þessa eða hins.“

Á milli línanna má lesa að fréttamaðurinn telur að sér vegið. Hann er viðkvæmur fyrir gagnrýni eins og kom í ljós á tíma Evrópuvaktarinnar þegar hann snerist af þunga til varnar þar vegna ummæla sem féllu um afstöðu hans til ESB – voru þau orð mín smámunir miðað við það sem sagt hefur verið um atbeina hans í þágu hrunmannanna.

Það sem Kristín Þorsteinsdóttir segir um að fréttamenn 365 leggist ekki „svo lágt að gerast peð í herferð manna utan úr bæ“ er ekki annað en endurómur af því sem stjórnendur Baugsmiðlanna sögðu á tíma Baugsmálsins. Þá var að vísu sá munur að ekki var um „herferð manna utan úr bæ“ að ræða heldur vörn fyrir sjálfan Jón Ásgeir. Hvað eftir annað var fullyrt að Baugsmiðlarnir gengu ekki erinda eiganda síns, þeir sem héldu öðru fram stunduðu argasta atvinnuróg. Raunar væri það eitt hneyksli að kenna miðlana við Baug.

Eftir að Baugsveldið hrundi birtust ýmsir fyrri málsvarar þess í öðru gervi og viðurkenndu að nafngiftin Baugsmiðlar hefði átt fullan rétt á sér, á vettvangi miðlanna hefðu menn gengið erinda Baugs og eigenda hans.

Í þessu ljósi er ástæða til að taka með fyrirvara yfirlýsingum Kristínar aðalritstjóra sem var blaðafulltrúi Baugs þar til hún varð útgáfustjóri og síðar aðalritstjóri 365. Málatilbúnaður 365 vegna hrunmála þjónar hagsmunum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar ekki aðeins „manna utan úr bæ“.