6.7.2016 19:00

Miðvikudagur 06. 07. 16

Erlendar fréttir verða ekki skrifaðar á íslensku eða önnur tungumál án þess að sá sem skrifar hafi þekkingu á bakgrunni þeirra.

Þetta kom í hugann við lestur fréttar á mbl.is í dag um að ESB-þingið hefði samþykkt að „stofna nýjan landamæraher til að taka á flóttamannavandanum“.  Í fréttinni segir að „hernum“ sé „ætlað að standa vaktina á landamærum landa á borð við Grikkland og Ítalíu“.

AFP-fréttastofan er borin fyrir þessari frétt sem er í raun um að ESB-þingið hafi samþykkt að Evrópsku landamæra- og strandgæslustofnuninni  European Border and Coast Guard Agency skuli komið á fót. Um er að ræða „uppfærslu“ á Frontex, Landamærastofnun Evrópu.

Nýja stofnunin getur tekið frumkvæði ef talin er hætta á að varsla á ytri landamærum Schengen-svæðisins dugi ekki til að halda aftur af ólöglegum straumi farandfólks. Leggur hún greiningu og mat fyrir viðkomandi ríki og vinnur að lausn vandans með samþykki og í samvinnu við ríkið.

Til að gera stofnuninni kleift að skerast í leikinn ef viðkomandi ríki ræður ekki við vörslu ytri landamæranna er henni heimilt að koma á fót allt að 1.500 manna varaliði landamæravarða úr öllum Schengen-ríkjunum sem unnt er að kalla út til að sinna vörslu þar sem brestur hefur komið í hana. Líklegt er að á mbl.is hafi menn ályktað sem svo að þarna sé kominn landamæraher ESB sem standi stöðugt vaktina. Það er einfaldlega misskilningur.

Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi í kvöldfréttum við Jón Bjarnason, formann Heimssýnar, um nýbirta sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra Íslands og varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna um samstarf ríkjanna í varnarmálum. Jón Bjarnason tók að sér að túlka yfirlýsinguna með vísan til varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og fórst það illa úr hendi.

Á vefsíðunni heimssyn.is er félagsskapnum lýst með þessum orðum:

„Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.“

Jón Bjarnason hefur fullt frelsi til að lýsa skoðunum sínum á öryggis- og varnarmálum Íslands. Spurning er hvort hann talaði í nafni Heimssýnar í fréttatímanum eða hvort fréttastofunni þótt við hæfi að láta líta svo út sem hann gerði það. Jón verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni.