VG leikur áfram tveimur skjöldum í ESB-málinu
Ástæðan fyrir því að Katrín Jakobsdóttir vill ekki loka neinum dyrum varðandi aðildarferli að ESB er augljós: Væntanlegir samstarfsflokkar VG í ríkisstjórn, Samfylking og Píratar, vilja í ESB.
Bændablaðið lagði nokkrar spurningar fyrir fulltrúa stjórnmálafokkanna og má sjá spurningarnar og svörin hér.
Ein spurninganna var um hvort viðkomandi flokkur ætlaði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB á kjörtímabilinu. Nei sögðu Alþýðufylkingin, Dögun, Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn (VG). Já sögðu: Björt framtíð, Píratar, Samfylking og Viðreisn.
Kannanir sýna að líklegt sé að VG, Samfylking og Píratar myndi ríkisstjórn að loknum kosningum. Í viðræðum um þá stjórnarmyndun yrði greinilega ágreiningur um ESB-mál megi taka mið af svörum flokkanna við spurningu Bændablaðsins. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherraefni, segir þó andstöðu við ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu ekki fasta í hendi.
Blaðamaður vefsíðunnar visir.is ræddi við Katrínu vegna svaranna í Bændablaðinu. Hún gerði lítið úr ESB-afstöðunni og sagði:
„Það er alveg á hreinu af okkar hálfu að við leggjumst alls ekki gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Við höfum sagt að það sé bara eitthvað sem við séum opin fyrir að ræða. Það er ekki á okkar stefnu að halda þjóðaratkvæðagreiðslu af því við viljum ekki fara inn en við erum tilbúin til þess og munum aldrei leggja stein í götu þess.“
Blaðamaður spyr: Það fer þá kannski frekar eftir því hvað kemur út úr þessum stjórnarmyndunarviðræðum?
Katrín Jakobsdóttir svarar:
„Já, mér finnst þetta vera svona samkomulagsatriði í stjórnarmyndunarviðræðum og ég ímynda mér að allir flokkar séu sammála um það að það sé mikilvægt að horfa til stöðunnar í Evrópu. Við höfum ekki sagt að það sé forgangsmál að gera það [að leggja hugsanlega aðild fyrir kjósendur] en það mun ekki standa á okkur í því. Við leggjumst að sjálfsögðu ekki gegn því að það verði leitað til þjóðarinnar.“
Ástæðan fyrir því að Katrín Jakobsdóttir vill ekki loka neinum dyrum varðandi aðildarferli að ESB er augljós: Væntanlegir samstarfsflokkar VG í ríkisstjórn, Samfylking og Píratar, vilja í ESB. Þá sýna kannanir að tæplega helmingur þeirra sem lýsa yfir stuðningi við VG vilja fara í ESB. Vinstri stjórn á Íslandi yrði þannig ESB-aðildarstjórn.
Þessi þróun VG til ESB-aðildarflokks hófst eftir kosningarnar vorið 2009 þegar Steingrímur J. Sigfússon sveik kosningaloforðið um að berjast gegn ESB-aðild til að fá fjármálaráðherrastólinn hjá Samfylkingunni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Enn á ný leikur VG tveimur skjöldum. Sagt er nei þegar rætt er við Bændablaðið en já þegar hugað er að stjórnarmyndun með ESB-flokkum.
Samhljómurinn milli Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í ESB-málinu bendir til að Viðreisn verði fjórða hjólið undir ESB-lestarvagninum undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Vinstrisinnar ætla að vega að ákveðnum hópum landsmanna og atvinnugreinum með breytingum á skattkerfinu og skapa sundrung og illdeilur vegna nýrrar ESB-aðildarumsóknar.