Borgarlína verður kosningamál
Óhjákvæmilega verður tekist á um ólík sjónarmið vegna borgarlínu í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Bloggarinn Páll Vilhjálmsson skrifar í dag :
„Borgarlína vinstrimanna verður aðeins að veruleika ef fólk er þvingað úr einkabílum yfir í almenningssamgöngur. Þvingunin verður í formi verri þjónustu við almenning, færri og dýrari bílastæði, álögur á bíla og eldsneyti.
Borgarlína vinstrimanna verður stærsta málið í borgarstjórnarkosningunum í vor.
Frosti Sigurjónsson rekstrarhagfræðingur og fyrrum þingmaður er maðurinn til að stöðva borgarlínuna. Hann þarf að verða borgarstjóri.“
Páll segir þetta í tilefni af pistli sem Frosti birti á vefsíðu sinni frostis.is sunnudaginn 7. janúar. Þar segir hann að kostnaður við borgarlínuna verð 1-2 milljónir króna á hvert heimili og það standist ekki að línan verði „hagkvæm samgöngubót“ eins og talsmenn hennar segja, nær sé að verja 75 til 100 milljörðum króna í „margt annað og áhrifaríkara til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu“.
Frosti minnir á að nú séu aðeins 4% ferða á höfuðborgarsvæðinu farnar í strætó en til að reikningsdæmið sem talsmenn borgarlínu gefa sér þurfi þetta hlutfall að þrefaldast í 12%. Gerist þetta ekki blasir við milljarða tap á borgarlínunni ár hvert.
Borgarlína í Árósum. Verkefnið reyndist flóknara og dýrara en áætlað var.
Nú eru aðeins 4% ferða á höfuðborgarsvæðinu farnar með strætó en hlutfallið þarf að ná 12% svo dæmið gangi upp. Ef þessi forsenda bregst gæti rekstrartap Borgarlínu numið milljörðum árlega.
Frosti segir að borgarlínan muni „auka umferðarteppu á álagstímum en ekki draga úr henni“. Til að knýja fólk til að nota vagna línunnar mæla sérfræðingar með þvingunaraðgerðum sem bitni meðal annars á notendum einkabíla.
Í greininni minnir Frosti á hve mikils virði tíminn sé fyrir hvern og einn – borgarlínan muni leiða til mikillar tímasóunar allra, hvort sem þeir nota hana eða ekki. Hann segir:
„Þeir sem ferðast í Borgarlínu verða að meðaltali 15-20 mínútur lengur að komast leiðar sinnar en þeir sem ferðast í rafbíl. (Að meðaltali þarf að ganga 500m að næstu biðstöð sem tekur 5 mín., að meðaltali tekur 5 mín. að bíða eftir vagni. Vagninn stoppar nokkrum sinnum og það lengir ferðina um 5 mín. Svo þarf að ganga 5 mín. að áfangastað, samtals 20 mínútur.) Sá sem fer til vinnu með Borgarlínu tvisvar á dag 200 daga á ári tapar því 67 klukkustundum.“
Til mótvægis við þetta vilja sérfræðingar að gerðar séu ráðstafanir til að tefja fyrir þeim sem vilja nota einkabíl: „Það er gert með því að fækka akreinum fyrir bíla sem eykur líkur á umferðartöfum og fækka bílastæðum sem þýðir að fólk getur ekki lagt eins nálægt áfangastað. Það er ótrúlegt að borgarstjóri og sveitarstjórar telji slík áform „auka lífsgæði“ íbúa,“ segir Frosti réttilega.
Hann finnur engin haldbær rök fyrir að ráðist sé framkvæmdir vegna borgarlínu og lýkur grein sinni á þessum orðum:
„Borgarlínuverkefnið er engu að síður alveg á fullri ferð, fast á einhverri sjálfstýringu. Eina vonin er að einhver sýni frumkvæði og grípi í neyðarhemilinn áður en tjón íbúa á svæðinu fer að teljast í tugum milljarða.“
Óhjákvæmilega verður tekist á um ólík sjónarmið vegna borgarlínu í komandi sveitarstjórnarkosningum. Frosti reifar skoðun sem á mikið erindi inn í umræðurnar. Hann ætti að bjóða sig fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík og láta reyna á stuðning þeirra sem þar kjósa við sjónarmið sitt.