27.8.2018 9:41

Ferðamenn svipulir eins og síldin

Að líkja ferðamönnum við síld sem sækir á Íslandsmið er ekki út í hött.

„Lífskjör á Íslandi eru góð, með þeim bestu meðal OECD-ríkja, og ójöfnuður lítill í alþjóðlegum samanburði. Fátækt mælist einnig lítil í slíkum samanburði. Hagkerfið hefur náð sér eftir áfallið árið 2008 og helstu hagstærðir hafa aldrei verið jafn hagstæðar og um þessar mundir.“

Á þessu orðum hefst ritgerð sem Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Ísland, ritaði að beiðni forsætisráðuneytisins í aðdraganda kjarasamninga haustið 2018. Skýrslunni er ætlað að lýsa þjóðhagslegu umhverfi samninganna og fjalla um svigrúm til launahækkana á haustmánuð.

Skynsamlegt er að fá hagfræðing til að taka saman slíkt skjal í von um að það skapi viðurkenndan umræðugrundvöll í kjaraviðræðunum sem í hönd fara. Þá hefur Gylfi setið fundi með aðilum kjaraviðræðnanna.

Þegar ritgerðin er lesin sést að höfundur nálgast viðfansgefnið ekki á þann veg að eins dauði sé annars brauð heldur sé um sameiginlega hagsmuni að ræða. Markmiðið hljóti að vera að verja árangurinn sem hefur náðst samhliða úrbótum sem grafa ekki undan honum.

Sardine-school

Gylfi segir til dæmis:

„Ef svo fer að innlendar launahækkanir geri ferðaþjónustu ósamkeppnishæfa og ferðamönnum fækki þá mun gengi krónunnar lækka í kjölfarið og kaupmáttur launa minnka fyrir þær sakir. Lífskjör verða þá verri í framtíðinni. Verði það að veruleika mætti segja að Íslendingar hefðu farið eins illa að ráði sínu og þegar þeir ofnýttu fiskistofnana á liðnum áratugum. Í hagsögunni yrði ferðaþjónustan þá einungis enn eitt „síldarævintýrið“.“

Fyrir hálfri öld þegar síldin hvarf af Íslandsmiðum minntu stjórnmálamenn á að sjávarafli væri svipull og þess vegna þyrfti að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið eins og gert var með álverinu í Straumsvík. Ákvörðunin um álverið og virkjun Þjórsár við Búrfell var umdeild. Gagnrýnin á hana er nú skólabókardæmi um pólitíska skammsýni.

Að líkja ferðamönnum við síld sem sækir á Íslandsmið er ekki út í hött. Gengið var svo nærri síldarstofninum að hann hafði ekki afl til að halda vestur á bóginn frá Noregi. Verður sú stefna mótuð með kjarasamningum að Ísland sé hágæðaland í ferðaþjónustu, aðeins fyrir þá sem betur mega sín?