8.10.2000 0:00

Sunnudagur 8.10.2000

Klukkan 13.30 fór ég í þáttinn Silfur Egils með Össuri Skarphéðinssyni, sem sótti fast að mér í menntamálum en hafði ekki kynnt sér þau nema að takmörkuðu leyti , sem ég marka af því, að hann hélt því fram, að ég hefði ekki gert neitt til að stytta nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Sérkennilegast þótti mér þó, þegar hann sagði okkur Agli Helgasyni, að við skyldum bara bíða, Samfylkingin færi að ná sér á strik. Taldi ég þetta tal um bið eftir að sigurgangan hæfist væri orðin hlægileg, til dæmis hefðum við síðasta vetur átt að bíða, þar til formaður yrði kjörinn í Samfylkingunni, hann væri nú kominn en ekki hið aukna fylgi. Fór í viðtal við fréttastofu sjónvarps RÚV um prest á Þingvöllum. Flaug til New York klukkan 16.20.