11.6.2018 9:50

Ráðherra dómari í eigin sök

Þarna er vikið að álitamáli sem snertir samskipti ráðuneytis og undirstofnunar sem reist eru á samningi.

Anna Björnsdóttir, sérfræðilæknir í parkinsons-sjúkdómnum, fær ekki aðild að samningi Sjúkratrygginga ríkisins við sérfræðilækna vegna fyrirmæla Svandísar Svavarsdóttur (VG) heilbrigðisráðherra. Kærði Anna höfnun sjúkratrygginga til heilbrigðisráðuneytisins. Staðfesti ráðuneytið höfnunina.

Steingrímur Ari Arason, forstjóri sjúkratrygginga, lýsir (Morgunblaðinu 11. júní) undrun yfir að heilbrigðisráðherra hafi gerst dómari í eigin sök með því að úrskurða í máli Önnu. Ráðherra hefði átt að lýsa sig vanhæfan. Segir Steingrímur Ari að úrskurður ráðuneytisins hefði átt að snúast um hvort lög hefðu heimilað ráðherra að skipa sjúkratryggingum að semja ekki við Önnu en ekki um það hvort sjúkratryggingar hefðu farið að fyrirmælum ráðherrans.

Þarna er vikið að álitamáli sem snertir samskipti ráðuneytis og undirstofnunar sem reist eru á samningi. Orð Steingríms Ara verða ekki skilin á annan veg en þann að hann telji samning sjúkratrygginga við heilbrigðisráðuneytið heimila að samið sé við Önnu en ráðherrann hafi lagt stein í götu þess. Í samtali við ríkissjónvarpið sagðist ráðherrann gera þetta til að spara útgjöld ríkisins. Síðan hreyfði ráðherrann að vísu lausn sem talin er miklu dýrari. Lausnin minnir á að sjúkratryggingum er bannað að greiða fyrir liðskiptaaðgerðir hér á landi sem kosta milljón en er skylt að greiða þrjár milljónir fari sjúklingur í aðgerðina í Svíþjóð.

Álitamálið í ágreiningi ráðuneytisins og sjúkratrygginga virðist snúa á því hver eigi síðasta orðið um túlkun á samningi ráðuneytis við undirstofnun sama ráðuneytis. Slíkir samningar hafa verið gerðir á fjölmörgum sviðum. Til að þeir hafi gildi ber að líta á þá þeim augum að tveir jafnréttháir aðilar standi að samningnum og komi til ágreinings um efni hans skuli leita til þriðja aðila um túlkun á ágreiningsefninu.

Málum er ekki þannig háttað í reynd því að ráðuneytin telja sig hafa heimild til einhliða túlkunar á efni samninganna. Þeir verða því marklitlir og leiða til ágreinings á borð við þann sem hér er lýst þar sem ráðherrann segist eiga síðasta orðið.

Vegna þess hvernig sambandi ráðuneytis og undirstofnana er háttað er sjaldgæft að forstöðumenn stofnana gangi fram eins og Steingrímur Ari hefur gert í þessu máli þegar hann dregur í efa lögmæti fyrirmæla ráðherra og segir þau ganga gegn efni samnings sem sama ráðherra ber að virða. Ágreiningur sem þessi verður ekki leystur nema fyrir dómi.