20.4.2020 15:08

Säpo gengur mun lengra en Þjóðaröryggisráð

Hér starfar engin stofnun með þær heimildir sem Säpo hefur til að gæta öryggis Svía. Má helst líkja þeim við heimildir rakningarteymis ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis.

Sænska öryggislögreglan, Säpo, hefur nýlega sent dreifibréf innan sænska stjórnkerfisins með varnaðarorðum vegna þess að „erlent ríki“ reyni í vaxandi mæli að nýta sér COVID-19-faraldurinn til að „veikja Svíþjóð“. Tveimur meginaðferðum sé beitt, (1) að bjóða mikilvægan hlífðarbúnað í þágu heilbrigðiskerfisins; (2) að bjóðast til að leggja fyrirtækjum sem glíma við fjárhagsvanda til fjármuni.

„Erlent ríki nýtir sér þetta ástand með alls kyns tilboðum, lánum og gjöfum sem geta verið tengd skilyrðum um framtíðarsamstarf eða áhrif,“ segir forstjóri Säpo sem skrifar undir bréfið. Þar er einnig varað við því að njósnarar reyni að fylgjast með fjarfundum sem stofnað er til vegna þess að fólk tengist vinnustað sínum frá heimilum sínum.

Öryggislögreglan hvetur til þess að miðlað sé til hennar upplýsingum vakni grunsemdir vegna óvenjulegra tilboða eða atvika við fjarskipti. Þá kemur fram að það sé ekki aðeins í Svíþjóð sem lögregluyfirvöld verði vör við að af óvild en undir öðru yfirvarpi sé reynt að nýta sér ástandið sem skapast hefur vegna COVID-19.

Undir lok mars 2020 kynnti Säpo ársskýrslu sína fyrir árið 2019. Meginniðurstaðan var að á fleiri sviðum en áður væri Svíum hótað af erlendum ríkjum. Stafræn samskipti gerðu samfélagið berskjaldaðra en áður var. Kínverjar og Rússar voru sagðir umsvifamestir í njósnum og þeir færðu sig upp á skaftið með því að vega að friðhelgi einkalífs, mannréttindum, efnahagslegri velmegun, friðhelgi stjórnmála og landsyfirráða.

50a86b84-089f-4592-ba9e-1b3147a0b469Klas Friberg, forstjóri sænsku öryggislögreglunnar, Säpo.

Hér starfar engin stofnun með þær heimildir sem Säpo hefur til að gæta öryggis Svía. Má helst líkja þeim við heimildir rakningarteymis ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis í baráttunni við COVID-19, það er að skima, greina og grípa til viðbragða í því skyni að sporna við aðför að sænsku öryggi.

Á vef stjórnarráðsins má í dag (20. apríl) lesa að Þjóðaröryggisráð hafi ákveðið að koma á fót vinnuhópi til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni. Hvað felst í nýyrðinu „upplýsingaóreiða“ er óljóst. Í tilkynningunni segir einnig:

„Sjaldan hefur verið mikilvægara að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum eins og nú í tengslum við þennan heimsfaraldur sem nú geisar.“

Undir þetta skal tekið. Upplýsingafalsanir og miðlun falsfrétta er einmitt eitt af því sem Säpo nefnir. Það er þó einnig vikið að öryggi borgaranna á annan veg og við því þarf ekki síður að bregðast hér en annars staðar. Hér eru varnir gegn netárásum mun veikari en annars staðar, þær eru til dæmis ekki reistar á að skima, greina veirur og grípa til varna gegn þeim. Lagaheimildir skortir til þess. Hér stöndum við að baki öðrum norrænum þjóðum. Það er mikilvægt skref hjá Þjóðaröryggisráði að stofna til varna gegn „upplýsingaóreiðu“ en víðar þarf að efla varnir í fjölþáttaátökunum sem fara fram samhliða baráttunni við COVID-19.