2.10.2018 10:11

Siðavöndun gagnvart stjórnvöldum

Sigurður Már segir að af fréttum hafi mátt skilja sem svo að það skorti nú illilega verkefni hjá Siðfræðistofnun HÍ.

Sigurður Már Jónsson blaðamaður ræðir á FB-síðu sinni sunndaginn 30. september um hve misjafnlega er tekið á skýrslum háskólaprófessora í þáttum ríkisútvarpsins. Hann segir meðal annars:

„...fyrir stuttu vann Jón Ólafsson heimspekiprófessor skýrslu fyrir forsætisráðuneytið og fékk í kjölfar þess heiðurssæti í Silfrinu [sunnudaagsþætti sjónvarpsins], svo mjög að skilinn var eftir auður stóll við hlið forsætisráðherra sem mátti ásamt öðrum stjórnmálaleiðtogum, sem komu í þáttinn, hlýða á boðskap Jóns þá loksins er hann mætti. Daginn áður hafði þessi sami Jón setið í Vikulokunum á Rás 1 þar sem hann talaði óáreittur um það hugarefni sitt að fá að setja ríkisstjórninni siðareglur. Áður hafði fréttastofa Ríkisútvarpsins staðið fyrir rækilegri umfjöllun um skýrsluna. Það var kannski broslegast við þetta allt saman að niðurstaða Jóns var að leggja til að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands yrði falið það verkefni, tímabundið til að byrja með, að veita stjórnvöldum ráðgjöf um siðferðisleg álitamál og styrkja þannig stofnanaumgjörðina eins og það hét. Siðfræðistofnun yrði einnig falið að annast eftirfylgni með skýrslunni. Tekið er fram að tryggja þurfi fjárveitingu til þeirrar starfsemi en látið ógetið hvað það kostar.“

Sigurður Már segir að af fréttum hafi mátt skilja sem svo að það skorti nú illilega verkefni hjá Siðfræðistofnun HÍ. Í skýrslu um starfsemi hennar árið 2017 megi lesa eftirfarandi: „Stofnunin stendur höllum fæti og er með skuldahala.“

Index_1538475063029Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvort ríkisstjórnin leysir úr verkefna- og fjárhagsvanda þessarar stofnunar með því að ráða hana til að leiðbeina sér og öðrum um siðfræði. Varla fer það leynt því að þegar Jón Ólafsson kynnti niðurstöður starfshóps um þessi efni 5. september 2018 lagði hann sérstaka áherslu á nauðsyn gegnsæis og miðlunar upplýsinga til almennings. Á mbl.is stóð meðal annars:

„Jón [Ólafsson] sagði að ef stjórnvöld væru að reyna að fegra það sem þau væru að gera yrðu þau auðvitað sökuð um spuna. Það væri hins vegar mikilvægt að koma miklum og réttum upplýsingum til borgaranna.“

Þessi orð eiga erindi til fleiri en stjórnvalda (les: stjórnmálamanna). Meðal annars til stjórnenda ríkisútvarpsins sem fara undan í flæmingi, grípa til spuna og leita á náðir ráðuneytis þegar bent er á að þeim beri að fara að lögum og stofna dótturfélög um samkeppnisrekstur sinn.