Soros, Píratar, umskurður
Alþjóðavæðingin hefur getið af sér meiri erlend afskipti af stjórnmálum einstakra landa en áður þekktist.
Í Bretlandi reiðast margir vegna þess að bandaríski auðmaðurinn George Soros hefur lagt mikið fé, 400.000 pund, 56 milljónir ísl. kr., til að stofna til herferðar gegn úrsögn Breta úr ESB. Um helgina birti hann heilsíðu grein í blaðinu The Mail on Sunday til varnar ákvörðun sinni um að blanda sér á þennan hátt í bresk stjórnmál.
Í The Daily Mail hafði föstudaginn 9. febrúar birst forsíðuleiðari undir fyrirsögninni: Farðu, Mr. Soros. Þú getur átt skítugu peningana þína.
Vegna þessara afskipta Soros af þessu mikla hitamáli í Bretlandi hafa enn og aftur birst greinar á netinu og í blöðum um stuðning Soros við alls kyns hópa í Evrópu.
Soros er 87 ára og fæddur í Ungverjalandi en með því að afla sér falsaðra skilríkja varð hann ekki nasistum þar að bráð í síðari heimsstyrjöldinni. Hann flýði til Bretlands þegar kommúnistar komust til valda í Ungverjalandi og segir að sér sé annt um Bretland og vilji veg þess sem mestan og það sé tryggt með ESB-aðild. Þeir sem taka upp hanskann fyrir Soros segja gjarnan að í gagnrýni á hann gæti greinilega gyðingahaturs.
Í greinum eftir Wayne Madsen, höfund á netinu sem sumir telja smið samsæriskenninga, um málstað sem Soros styður er Pírata-flokkurinn nefndur til sögunnar. Á þessari vefsíðu https://www.strategic-culture.org/news/2015/04/19/increased-soros-destabilization-through-appearance-micro-nations.html segir að Pírata-flokkar í Evrópu hafi notið góðs af fjárstuðningi frá Open Society Institute and Foundation, það er sjóði sem Soros stofnaði og stjórnar í raun. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, var um skeið formaður Evrópusamtaka Pírata.
Þessi mynd birtist með einni af Soros-greinunum eftir Wayne Madsen.
Wayne Madsen birti pistil 12. janúar 2017 um að Soros væri að ná undirtökunum innan vinstrihreyfinga í Evrópu – Soros cementing control over Europe’s left. http://futurefastforward.com/2017/01/12/soros-cementing-control-over-europes-left/ Þar segir að stofnun Soros styðji Pírata-flokka, nýja flokka sem taka verði tillit til í Þýskalandi og á Íslandi.
Hvað sem hæft er í þessum stuðningi Soros við Pírata minna skrif Madsens að alþjóðavæðingin hefur getið af sér meiri erlend afskipti af stjórnmálum einstakra landa en áður þekktist. Fréttir um misbeitningu samfélagsmiðla í þessum tilgangi, falsfréttir, upplýsingafalsanir og varúðarráðstafanir einstakra ríkja gegn tölvu- og netmisnotkun í kosningabaráttu segja sína sögu.
Í þessu efni á allt að vera uppi á borðum. Þess vegna er stórundarlegt að þingmaður Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem leggur til allt að sex ára fangelsi við því að umskera drengi skuli telja það „gróf afskipti“ að Samtök Gyðinga á Norðurlöndunum saki hana um atlögu gegn gyðingdómi. Í sameiginlegri yfirlýsingu samtakanna, sem send hefur verið öllum alþingismönnum, segir að með frumvarpi Silju Daggar sé ráðist gegn gyðingdómi þannig að það snerti Gyðinga um heim allan.
Varla kemur þingmanninum á óvart að Gyðingar árétti afstöðu sína í þessu máli? Deilan um umskurð drengja hefur staðið í tvö árþúsund. Þingmaðurinn telur það „ákveðna yfirgangssemi“ að mótmælt sé opinberlega en ekki í umsögn til þingnefndar!
Hafi Silja Dögg Gunnarsdóttir ekki verið við því búin að hún sætti gagnrýni Gyðinga um heim allan vegna frumvarps síns er það undarlegra en bréfið sem alþingismönnum hefur borist.