Stjórnsýslulög á þingi og í borg
Nefndarformaður Samfylkingar á þingi vill rannsókn vegna brota á stjórnsýslulögum nefndarformaður Samfylkingar í borg segir tilganginn helga brot á lögunum.
Þegar þetta er skrifað situr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis á fundi og ræðir tillögu Samfylkingarþingmannsins og nefndarformannsins, Helgu Völu Helgadóttur um að nefndin segi sig frá „rannsókn“ á skipun dómara í landsrétt til að umboðsmaður alþingis geti tekið málið til meðferðar að eigin frumkvæði. Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður sagði í fjölmiðlum á dögunum að hann gæti ekki hafst neitt að í málinu af því að það væri til athugunar á alþingi.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina sagði Davíð Oddsson, fyrrv. forsætisráðherra:
„Dómur [hæstaréttar] féll á dögunum um skaðabóta- og miskakröfur einstaklinga sem reiknistokkur Einsteins eða annarra ofurmanna, hafði með óskeikulum hætti fundið út að ættu að vera í hópi 15 útvaldra af 33 og það upp á 0,025% og alls ekki nokkur hinna!
Jafnvel kardínálar gömlu kirkjuþinganna í Róm voru ekki svona vissir í sinni sök þegar meinlokurnar heltóku þá, eins og nefndarmennirnir þarna. Höfðu kardínálarnir þó bakhjarl sem bágt var að þrátta við. Reiknistokksmenn, með alla aukastafina, höfðu sannfært sig um að enginn annar en þeir mætti hafa neitt um þetta að segja og allra síst sá sem bar ábyrgð á öllu saman!
Meira að segja Umboðsmaður Alþingis, sem aldrei bregst þegar mestu vitleysuna vantar liðsmann, setti á sig hlaupaskóna sem hann notaði í Hönnu Birnu málinu og brúkar helst þegar brýnast er að hlaupa á sig án tafar og reyndi að tryggja að einn af geislum sviðsljóssins félli á hann.
En það hljóta allir læsir menn að mega segja að fyrrnefndur dómur Hæstaréttar er æði ólíklegur til að fá fegurðarverðlaun, enda illt að geta ekki stillt sig um að leggja mönnum lið, sem seilast til valds sem þeir hafa ekki.“
Nú vill Helga Vala Helgadóttir tryggja að umboðsmaður alþingis komist örugglega í sviðsljósið vegna landsréttarmálsins. Umboðsmaður hannar ef til vill reglu til að binda hendur þings og ráðherra við skipan dómara?
Veghúsastígur 1 Minjastofnun hefur aflétt friðun og telur ekki hægt að gera við húsið en borgin hafnar niðurrifi. Myndina tók Árni Sæberg og birtist hún í Morgunblaðinu.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að synja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ekki einungis hafi rannsókn málsins hjá borginni verið verulega áfátt heldur hafi rökstuðningur ákvörðunarinnar verið ófullnægjandi hjá umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar undir formennsku samfylkingarmannsins Hjálmars Sveinssonar. Er aðild Hjálmars að meðferð málsins hjá skipulagsráði og í borgarstjórn auk þess talin orka tvímælis enda hafi opinber ummæli hans verið til þess fallin að draga í efna óhlutdrægni hans.
Blaðamaður Morgunblaðsins spyr Hjálmar í dag (5. febrúar) hvort hann hafi íhugað að segja af sér. Hjálmar braut rannsóknarskyldu, skyldu til rökstuðnings og taldist hlutdrægur – allt í bága við stjórnsýslulög. Hann segir afsögn ekki hafa „hvarflað að sér“ og síðan segir:
„Minn hlutur í þessu máli er fyrst og fremst að standa fastur á því að vernda gömul hús. Ég hef aldrei dregið dul á það að ég tel ótækt að rifa þessi gömlu hús þarna. Ég er húsafriðunarmaður og stend við það,“ segir hann. Hann segist heldur ekki sjá ástæðu til að aðrir íhugi afsögn.“
Þarna helgaði tilgangurinn sem sé meðalið! Hvað segir Helga Vala um þetta? Eða umboðsmaður alþingis? Er ekki líka starfandi umboðsmaður borgara á vegum borgarstjórnar?