2.10.2020 9:36

Styrk stjórn – skýr stefna

Stjórnarandstaðan býður ekkert betra en það sem felst í hugmyndum, störfum og tillögum ríkisstjórnarinnar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína í gærkvöldi (1. október) sama dag og alþingi kom sama, lokaþing kjörtímabilsins, gengið verður til kosninga 25. september 2021 nema þing verði rofið fyrir þann tíma. Litlar líkur eru á því þar sem gagnkvæmt traust einkennir stjórnarsamstarfið og ríkisstjórn hefur sýnt og sannað styrk sinn við töku erfiðra ákvarðana vegna COVID-19-faraldursins frá því á fyrsta fjórðungi ársins. Forsætisráðherrann nýtur trausts langt út fyrir raðir eigin flokks.

KatrineldhusKatrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína 1. október 2020 (mynd vg.is).

Stig af stigi hefur ríkisstjórnin brugðist við framvindu faraldursins og aldrei verður sú vísa of oft kveðin hve miklu skipti við upphaf þeirrar óvissuferðar að fjárhagur ríkissjóðs var góður og stoðir þjóðarbúsins styrkar undir forystu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Traustið í hans garð eykst við þessa raun núna þegar hann leggur fram áttunda fjárlagafrumvarp sitt. Hann lýsir markmiði sínu á þennan veg:

„Við munum koma út úr kreppunni sem sterkara, öflugra samfélag sem er betur í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Tæknivæddara, skilvirkara, grænna, sanngjarnara og kraftmeira samfélag. Þannig búum við Íslendingum lífskjör í fremstu röð til framtíðar.“

Katrín Jakobsdóttir sagði í stefnuræðu sinni:

„Þegar fyrsta smitið barst til Íslands ákváðu stjórnvöld að gera það sem þyrfti, og frekar meira en minna, til að koma samfélaginu í gegnum þann mikla efnahagslega skell sem leiðir af faraldrinum. Við gripum samstundis inn í með efnahagsaðgerðum til að tryggja afkomu fólks og styðja við almenning og atvinnulíf í gegnum erfiða tíma. Fram undan er tími endurreisnar þar sem við munum efla opinbera fjárfestingu, verja velferð og beita til þess krafti ríkisfjármálanna. Við njótum þess að hafa búið í haginn; staða þjóðarbúsins er sterk, skuldir hafa verið greiddar niður og Seðlabankinn ræður yfir öflugum gjaldeyrisvaraforða. Peningastefnan hefur skilað lægstu vöxtum lýðveldissögunnar.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, formaður Framsóknarflokksins, sagði:

„Ríkisstjórn framsóknar og Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er breið í eðli sínu. Þar koma saman ólíkir kraftar sem endurspegla að miklu leyti skoðanir þjóðarinnar. Hún hefur verið einbeitt í því að horfa á sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar og vinna að sátt í samfélaginu. Hún er á réttum tíma á réttum stað. Við þurfum að vernda störf, við þurfum að skapa störf. Það er verkefni sem við getum sameinast um. Þegar fer að vora verðum við tilbúin til að snúa vörn í sókn.“

Stjórnarandstaðan býður ekkert betra en það sem felst í hugmyndum, störfum og tillögum ríkisstjórnarinnar. Stefnuumræðurnar verða of langar og ómarkvissar með því að skipta þeim í þrjár lotur. Ein umferð er nóg til að þingflokkar komi sjónarmiðum sínum á framfæri, utanflokkafólk á alls ekkert erindi í þessar umræður eins og sannaðist vel í gærkvöldi.

Stjórnarandstaðan er á skeri og komst ekki á flot í gærkvöldi. Hana skortir vélarafl og enginn sér ástæðu til að skjóta til hennar björgunarlínu.