24.11.2017 10:09

Svartur dagur víðar en í viðskiptum

Sérkennilegt er að heyra stjórnmálamenn sem greiddu atkvæði með því að draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm láta eins og það sé tilvist Landsdóms að kenna, hann sé barns síns tíma og eitthvað annað verði að koma í stað hans.

Í franska blaðinu Le Figaro segir í dag, föstudaginn 24. nóvember, að árið 2010 hafi Black Friday borist frá Bandaríkjunum til Frakklands. Með því að tala um black Friday vísa verslunareigendur til þess að reksturinn komist úr rauða litnum (tapi) í svartan (hagnað. Þetta er föstudagurinn eftir fjórða fimmtudag í nóvember, þakkargjörðardaginn í Bandaríkjunum.

Nú hafa þessir viðskiptahættir breiðst um allan heim eins og við verðum vör við hér á landi með miklum auglýsingum um útsölur og önnur hagstæð tilboð sem bjóðast neytendum vegna þessa dags.

Í framhaldi af Black Friday er nú kominn Cyber Monday sem að þessu sinni er mánudagurinn 27. nóvember. Uppruna þessa dags þar sem hvatt er til útsölu í netheimum má rekja til ársins 2005.

Amazon fól fyrirtækinu CSA að kanna fyrir sig hvort Frakkar þekktu Black Friday og sögðust 85% þeirra gera það, að minnsta kosti í orði. Þá sögðust 61% Frakka vita fyrir hvað orðin stæðu. Meðal þeirra sem eru yngri en 35 ára vissu 95% allt um hvað þarna væri um að vera. Nú sögðust 52% Frakka ætla að nýta sér daginn til viðskipta en í fyrra, 2016, sögðust 21% ætla að gera. Markmiðið væri að gera hagstæð jólainnkaup.

Hér á landi tala sum fyrirtæki um svartan föstudag en önnur, líklega flest nota ensku orðin, einhver kallar föstudaginn „fössara“. Fyrst og síðast er þetta enn eitt dæmið um áhrif Bandaríkjamanna og alþjóðavæðingarinnar og hvernig einn eltir annan í því efni. Eitt er að viðskiptahættir taki á sig nýja mynd annað að menn þurfi að níðast á íslenskri tungu vegna þeirra. Það færist þó í vöxt, því miður.

Black-Friday

Sérkennilegt er að heyra stjórnmálamenn sem greiddu atkvæði með því að draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm láta eins og það sé tilvist Landsdóms að kenna, hann sé barns síns tíma og eitthvað annað verði að koma í stað hans.

Þetta er auðvitað ekki annað en kattarþvottur. Málaferlin fyrir Landsdómi verða ekki rakin til annars en vilja þingmannanna sem greiddu atkvæði með að Geir skyldi ákærður. Þingmennirnir voru ekki beittir neinni nauðung heldur tóku þeir sjálfstæða, illa ígrundaða ákvörðun til að koma höggi á pólitískan andstæðing. Málið er ekki flóknara en það.

Í yfirlýsingu sem Geir birti fimmtudaginn 23. nóvember segist hann réttilega hafa sigrað efnislega í málinu fyrir Landsdómi. Hann ætli að virða niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá segir hann einnig:

„Ákæran á hendur mér var vissulega áfall á sínum tíma. Ýmsir þeirra sem að ákærunni stóðu hafa hins vegar ýmist opinberlega eða í einkasamtölum lýst eftirsjá yfir þátttöku sinni í þeim pólitíska leik eða beðist afsökunar. Mér þykir vænt um þau viðbrögð. Ég er sömuleiðis þakklátur þeim fjölmörgu sem hafa lagt mér lið í þessu máli undanfarin sjö ár. Stuðningur þeirra hefur verið mér og fjölskyldu minni ómetanlegur.“

Mannréttindadómstóllinn gerir ekki athugasemd við tilvist Landsdóms eða málsmeðferðina þar. Hann fjallar hins vegar ekki um tilgang þeirra þingmanna sem ákváðu að „virkja“ dómstólinn en láta nú eins og hann sé eitthvað sem víkja eigi til hliðar. Þetta er léleg afsökun fyrir rangar ákvarðanir á svörtum degi í sögu alþingis.