15.2.2018 10:55

Þingforseti stoltur vegna þrýstings frá útlöndum

Enginn núverandi þingmaður hefur setið lengur á þingi en Steingrímur J. Sigfússon. Hann hefur náð „kjöri aftur og aftur“ oftar en nokkur annar í hópi þingmanna.

Það er ekki algengt að forseti alþingis gefi þinginu eða einstökum þingmönnum einkunn. Steingrímur J. Sigfússon þingforseti sá þó ástæðun til að stíga slíkt skref í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins (FRÚ) miðvikudaginn 14. febrúar þegar hann ræddi um viðbrögð við frumvarpi  Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um að gera umskurð drengja refsiverðan.  „Hann er stoltur af Alþingi að taka jafn eftirtektarvert mál til umræðu,“ sagði á ruv.is 14. febrúar.

Umskurður hefur um árþúsund verið grundvöllur trúarlegrar og menningarlegrar sjálfsmyndar gyðinga. Frumvarp Silju Daggar gengur lengra en frumvörp sem hafa verið samþykkt á Norðurlöndunum þar sem þeim sem framkvæma umskurð ber að skrá hverja aðgerð hjá hinu opinbera.

Samtök gyðinga á Norðurlöndunum hafa sent íslenskum þingmönnum bréf þar sem þeir mótmæla frumvarpinu harðlega og segja það árás á gyðingdóminn og snerti gyðinga um allan heim. Silja Dögg var furðu lostin vegna mótmælanna. Steingrímur J. segir á hinn bóginn að þessi hörðu viðbrögð séu skiljanleg vegna þess hve viðkvæmt málið er og við FRÚ segir hann:

„Og við eigum ekki að bogna undan því þó að mál af þessu tagi sem á fullt erind á dagskrá kveiki viðbrögð. En það á þá bara að halda málinu í framhaldinu yfirvegað og málefnalega og gefa því góðan tíma og skoða það. Við erum akkúrat með þannig mál í höndunum. Ég er frekar stoltur af því að Alþingi Íslendinga tekur frumkvæði í máli af þessu tagi sem vekur alþjóðlega athygli af því að ég tel að þetta mál eigi fullt erindi inn í umræðuna en það þarf auðvitað að skoða það og vinna það vel.“

Af orðum þingforsetans má ráða að honum stendur ekki á sama um þá athygli sem frumhlaup Framsóknarþingmannsins hefur vakið. Steingrímur J. segir „fremur sjaldgæft“ að þingmenn fái viðbrögð við frumvörpum frá útlöndum. Minnist hann þess þó þegar „við samþykktum Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki“ að þá hafi „heldur betur“ komið viðbrögð „aðallega frá einum [erlendum] aðila að vísu“.

Images-3Þarna vísar Steingrímur J. líklega til Ísraela. Þeir risu einnig til andmæla í september 2015 þegar borgarstjórn Reykjavíkur ályktaði í kveðjuskyni við Björk Vilhemsdóttur (Samfylkingu) að setja viðskiptabann á vörur frá Ísrael.

Í Fréttablaðinu í dag (15. febrúar) birtist áttunda og síðasta grein þriggja stjórnarskrársérfræðinga við lagadeild Berkeley-háskóla í Kaliforníu. Þeir berjast fyrir breytingu á íslensku stjórnarskránni. Innlendir baráttumenn fyrir nýrri stjórnarskrá hafa einnig frætt þá um stöðu stjórnmála hér. Undir lok síðustu greinarinnar lýsa þeir undrun yfir þjóðin hafi látið „það viðgangast“ að stjórnarskráin sé óbreytt. Berkeley-lögfræðingarnir segja:

„Það er alltaf tímabært að minna [ríkis]stjórnina á hagsmuni þjóðarinnar. Láta  menn vísvitandi það yfir sig ganga að stjórnin sé vanhæf [svo!] þótt þeir hafi það í hendi sér að ráða bót á því? Það er ólíklegt. Þó sjáum við að Íslendingar eru þjakaðir: þeir sem við tókum tali kvarta undan því að alltaf séu sömu stjórnmálamennirnir við völd [...] Ef sömu frambjóðendur og sömu flokkar ná kjöri aftur og aftur má búast við fleiri hneykslum, stjórnarkreppu og kosningum að ári. Ef Íslendingar taka ekki til hendinni á Íslandi gerir það enginn fyrir þá og þá breytist aldrei neitt.“

Enginn núverandi þingmaður hefur setið lengur á þingi en Steingrímur J. Sigfússon. Hann hefur náð „kjöri aftur og aftur“ oftar en nokkur annar í hópi þingmanna. Úr því að hann er tekinn til við að gefa einkunnir sem forseti alþingis um það sem útlendingar segja um þingmenn og alþingi væri forvitnilegt að heyra skoðun hans á afskiptum Berkeley-lögfræðinganna af stjórnarskrá og stjórnarháttum á Íslandi. Auka þau líkur á stjórnarskrárbreytingu?