16.1.2023 9:23

Tvær fréttir – tveir heimar

Þarna kemur með öðrum orðum fram að fyrir opnum tjöldum í þinghúsinu – í borgarstjórn kemur minnihlutinn hins vegar að harðlæstum dyrum.

Frá því í lok mars 2022 hafa stjórnarandstæðingar, einkum þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, farið hamförum á alþingi vegna sölunnar á 22,5% ef eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Skýrsla ríkisendurskoðunar á framkvæmd sölunnar er nú til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis sem starfar undir formennsku Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Samfylkingu.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (16. janúar) segir frá því Þórunn stjórni í dag 16. fundi um söluna á hlut ríkisins.

Sáttaviðræður fara nú fram milli fulltrúa Íslandsbanka og Fjármálaeftirlitsins að fengnu áliti eftirlitsins um að annaðhvort sektaði það bankann einhliða eða hann samþykkti að greiða sekt vegna framgöngu starfsmanna hans við söluna á hlut í bankanum.

„Ég ætla ekki að neita því að þessi tilkynning sem kom á dögunum varpar enn skýrara ljósi á það sem hugsanlega var í gangi þarna,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir við blaðið.

Þarna kemur með öðrum orðum fram að fyrir opnum tjöldum í þinghúsinu og á vegum eftirlitsstofnana ríkisins er öllum steinum velt í þessu viðkvæma viðskiptamáli sem snertir sjálfstæða opinbera stofnun, Bankasýsluna, og banka í ríkiseigu, Íslandsbanka.

IMG_6421Við hlið þessarar forsíðufréttar er önnur frétt um opinber viðskipti, um kaup borgarfyrirtækisins Ljósleiðarans ehf., dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur (OR), á stofnneti Sýnar fyrir um 3 milljarða króna, sem stórskuldugt borgarfyrirtækið verður að taka að láni.

Æðsta stjórn málefna borgarfyrirtækjanna er í höndum Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og nú Framsóknarflokksins. Þegar minnihlutinn í borgarstjórn vill upplýsingar um hvernig viðskiptum Ljósleiðarans ehf. við Sýn er háttað kemur hann að harðlæstum dyrum.

Gylfi Magnússon, prófessor og viðskiptaráðherra hjá Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu, í minnihlutastjórninni 1. febrúar 2009, er nú orðinn stjórnarformaður OR.

Prófessorinn beitir nú öllum ráðum til að halda upplýsingum um þessi viðskipti á ábyrgð OR leyndum með vísan til þess að um „viðkvæmar viðskiptalegar“ upplýsingar sé að ræða.

Hvað hefðu þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata sagt hefðu þeir fengið þessi svör vegna sölunnar á hlutnum í Íslandsbanka? Öll viðskipti er unnt að sveipa leyndarhjúpi með rökum á borð við þau sem Gylfi Magnússon ber þarna á borð.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra beitti sér hins vegar fyrir að ríkisendurskoðun gerði úttektina á bankasölunni sem þingnefnd ræðir nú á 16. fundi sínum. Fjármálaeftirlitið rannsakaði málið í samræmi við lög og reglur.

Hjá Reykjavíkurborg ráða duttlungar og leyndarhyggja meirihluta sem sýnir almenningi og minnihluta í borgarstjórn forakt þegar beðið er um upplýsingar um milljarða viðskipti.