22.12.2017 9:47

Virða ber sjálfsákvörðunarrétt Katalóníumanna og Bandaríkjamanna

Minnir staða Bandaríkjamanna á stöðu Katalóníumanna og allra annarra sem vilja verja sjálfsákvörðunarrétt sinn.

Katalónskir sjálfstæðissinnar í þremur stjórnmálaflokkum: Junts per Catalunya (JxCat, Sameinuð fyrir Katalóníu), Vinstri lýðveldissinnar Katalóníu (ERC) og Almenna einingarframboðið (CUP), hlutu 70 þingsæti af 135 í héraðsþingi Katalóníu í kosningum fimmtudaginn 21. desember.

Til kosninganna var boðað að fyrirmælum stjórnvalda í Madrid í von um að sambandssinnar næðu meirihluta á héraðsþinginu. Ciutadans, héraðshluti nýlegs miðjuflokks, hlaut flesta þingmenn 37, hafði 25. Mið-hægriflokkur Marianos Rajoys, forsætisráðherra Spánar, galt afhroð, fékk aðeins 3 þingmenn, hafði 11.

Kjörsókn var mikil 82% en var 75% í kosningum árið 2015.

Framkvæmdastjórn ESB segir úrslitin ekki breyta neinu, hún sé áfram andvíg sjálfstæði Katalóníu í óþökk spænskra yfirvalda sem njóti ESB-stuðnings.

Óskiljanlegt er að ráðamenn í Madrid velji frekar leið átaka en sátta í samskiptum við sjálfstæðissinna í Katalóníu. Í grunninn vilja Katalóníumenn fá aukinn ráðstöfunarrétt yfir skatttekjum sem verða til í héraðinu og vísa til réttarstöðu nágranna sinna í Baskalandi innan Spánar máli sínu til stuðnings.

Að Brusselmenn taki afstöðu með miðstýringarmönnum í Madrid vekur ekki undrun. Ofríki gagnvart Katalóníumönnum innan Spánar er í ætt við stjórnarhætti Brusselmanna innan ESB eins og sést nú á framgöngu þeirra gagnvart pólskum stjórnvöldum. Framkvæmdastjórnin krefst refsiaðgerða gegn ráðamönnum í Varsjá vegna þess að þeir hafa sett ný dómstólalög í landi sínu.

Hvít sjarna á bláum grunni í fánanum er tákn katalónskra sjálfstæðissinna. Myndin er tekin á baráttufundi í Brussel á dögunum.

Mikill meirihluti ríkja heims, þar á meðal Ísland, studdi málstað Palestínumanna gegn Bandaríkjamönnum og Ísraelum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fimmtudaginn 21. desember. Í ályktuninni er vegið að ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að hrinda í framkvæmd meira en 20 ára gamalli samþykkt Bandaríkjaþings um að Jerúsalem sé höfuðborg Ísraels.

Í Ísrael líta menn á samþykktina sem hvert annað hundsbit, þau sé aldrei unnt að forðast með öllu. Bitin breyti þó engu og Jerúsalem verði áfram höfuðborg Ísraels eins og hún hafi verið í 3000 ár. Trump hafi með ákvörðun sinni staðfest að aðferðir Bandaríkjaforseta til þessa til að knýja á um frið og tveggja ríkja lausn milli Ísraela og Palestínumanna hafi með öllu mistekist. Ef til vill verði ákvörðun Trumps til að Palestínumenn sjái að sér og hefji raunverulegar friðarviðræður.

Innan Bandaríkjanna líta menn á samþykkt allsherjarþingsins sem afskipti af sjálfsákvörðunarrétti sínum, bandarísk stjórnvöld ráði hvar sendiráð þeirra sé, stjórnarstofnanir Ísraels séu í Jerúsalem, þar eigi sendiráð heima.

Minnir staða Bandaríkjamanna á stöðu Katalóníumanna og allra annarra sem vilja verja sjálfsákvörðunarrétt sinn. Krafan um að Bandaríkjamenn geri það ekki er ekki síst sett fram vegna valds þeirra og áhrifamáttar á alþjóðavettvangi, Nú er spurning hvort þessum mætti verður beitt á annan hátt en áður gegn SÞ, engin þjóð leggur meira fé af mörkum til SÞ en Bandaríkjamenn.

Öllum sem greiddu atkvæði gegn ákvörðun Bandaríkjastjórnar er ljóst að atkvæðið breytir engu um ákvörðunina. Nýtt plagg er komið til sögunnar sem kann að hafa eitthvert gildi í áróðursstríði auk þess að draga dilk á eftir sér innan SÞ megi marka orð sendiherra Bandaríkjanna þar.

Áfram verður stál í stál á Spáni nema stefnubreyting verði í Madrid. Áfram verður stál í stál vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar um Jerúsalem nema Palestínumenn breyti um stefnu.